Pétur Georg Markan biskupsritari telur ákveðinn misskilning ríkja á stjórnskipan kirkjustjórnarinnar.
„Staðreyndin er sú að ekki var öðrum til að dreifa innan stjórnsýslu kirkjunnar til að standa að umræddri samningsgerð.“
Pétur sendi frá sér skriflega yfirlýsingu í félagi við Einar Huga Bjarnason hæstaréttarlögmann í dag vegna fréttaflutnings af ráðningarsamningi Sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, við þjóðkirkjuna og spurninga um umboð hennar til embættis biskups.
Segir í yfirlýsingunni að í gagnrýni í fréttaflutningi á að framkvæmdastjóri biskupsstofu og undirmaður biskups hafi ritað undir ráðningarsamning við biskup sjálfa fyrir hönd þjóðkirkjunnar, felist ákveðin misskilningur á stjórnskipan kirkjustjórnarinnar.
„Staðreyndin er sú að ekki var öðrum til að dreifa innan stjórnsýslu kirkjunnar til að standa að umræddri samningsgerð. Í því sambandi er til þess að líta að biskup Íslands er ekki starfsmaður kirkjuþings né rekstarstofu þjóðkirkjunnar, sem heyrir undir kirkjuþing, og því kom ekki til álita að kirkjuþing eða framkvæmdastjóri rekstrarstofu hefðu aðkomu að samningsgerðinni.
Til samningsins var því stofnað á grundvelli 2. mgr. 4. gr. starfsreglna kirkjuþings nr. 56/2021-2022 þar sem fram kemur að biskup Íslands annist ráðningarmál starfsfólks þjóðkirkjunnar. Líkt og tíðkast hefur um langa hríð í ráðningarmálum innan þjóðkirkjunnar ritaði framkvæmdastjóri biskupsstofu undir samninginn fyrir hönd þjóðkirkjunnar,“ eins og segir í yfirlýsingunni.
Þannig telur biskupsritari enga réttaróvissu um stöðu biskups Íslands. Þvert á móti hafi biskup fullt umboð til að sinna þeim verkefnum sem henni eru falin með lögum og jafnframt ákvörðunarvald um einstök mál á grundvelli laga eða kirkjuhefðar, enda hafi annar biskup yfir Íslandi ekki verið kosinn.
Biskup Íslands mun ekki tjá sig frekar efnislega um málið við fjölmiðla meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar, eins og segir í yfirlýsingunni.