Hundruð Þróttara sýndu Isaac stuðning í verki

Mörg hundruð manns mættu á aðalvöll Þróttar í kvöld til þess að sýna Isaac Kwateng stuðning í verki. 

Isaac ásamt mörg hundruð stuðningsmönnum sínum og Þróttar.
Isaac ásamt mörg hundruð stuðningsmönnum sínum og Þróttar. mbl.is/Hákon

Isaac starfar sem vallarstjóri félagsins en hann hefur tekið þátt í starfi Þróttar með einum eða öðrum hætti frá því að hann kom hingað til lands frá Gana árið 2017. Hann sótti um alþjóðlega vernd við komuna til landsins en hefur síðan þá ítrekað fengið höfnun og neitun um endurupptöku umsóknar sinnar. 

„Ég er orðlaus yfir öllu þessu fólki. Ég átti ekki von á að svona margir myndu mæta. Þetta var magnað, mögnuð tilfinning,“ sagði Issac við blaðamann að myndatökunni lokinni. 

Fylltist krafti 

Issac hefur verið í baráttu við kerfið síðan hann kom, hann segir alltaf jafn erfitt að fá símtöl um að nú eigi að senda hann úr landi, en í kvöld fylltist hann krafti og fékk von. Hann hyggst leggja hart að sér til að ná tökum á íslenskunni, með aðstoð Al­dísar Guðbrands­dótt­ur, kenn­ara í Lang­holts­skóla, sem bauð honum aðstoð sína í gegnum félagið. 

Í framhaldinu hyggst hann sækja um ríkisborgararétt hér á landi í gegnum Alþingi. „Mig langar að stofna til fjölskyldu og búa hér. Því fjölskylda er mér mjög mikilvæg, ég er bara mennskur,“ sagði Isaac. Hann segir það þó erfitt á meðan hann „stjórnar ekki eigin lífi,“ enda í stöðugum ótta um hvað verður. 

Fann fjölskyldu í Þrótti 

Hann segist þó mjög þakklátur fyrir fjölskylduna sem hann hefur eignast í gegnum Þrótt, en það sýndi sig í kvöld hversu mikils virði Isaac er félaginu. 

„Það var geggjað að sjá allt félagið á bak við hann og sýna stuðning hérna með því að standa með honum í þessari myndatöku,“ sagði Jón Hafsteinn Jóhannsson, þjálfari hjá Þrótti. 

„Ég átti klárlega von á því að þetta yrði fjöldinn sem myndi koma hingað og sýna honum stuðning,“ bætti hann við.

Jón segist upplifa mikið óréttlæti í máli Isaacs, sérstaklega í ljósi þess að hann sé hér með dvalar- og atvinnuleyfi en það sé þó gefið út frá stofnun „sem er líka að vinna í því að henda honum úr landi“. Hann segist „ekki skilja hvernig verkferlar ríkisins ganga upp í þessu samhengi“.

„Ég trúði í einfaldleika mínum að það væri nóg, að hann fengi dvalar- og atvinnuleyfi, en svo virðist ekki vera,“ bætti Jón við. 

Ötull í sjálfboðaliðastarfi

Í samtölum blaðamanns við félagið undanfarna daga hefur mátt greina mikið þakklæti í garð Issacs, en hann er sagður ávallt reiðubúinn að leggja félaginu lið í hinum ýmsu verkefnum. Það var því lýsandi, að myndatökunni lokinni, þegar Jón svipaðist um eftir Isaac og sagði síðan við blaðamann: „Hann er örugglega byrjaður að vinna eitthvað“.

Þegar okkur var síðan litið til hliðar var Isaac í samtali við Maríu Edwardsdóttur, framkvæmdastjóra félagsins, um verkefni morgundagsins, þar sem hann ætlaði sjálfur að vera mættur klukkan 6.30 til að aðstoða við undirbúning fyrir ReyCup sem fram fer á vallarsvæði Þróttar um helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka