Lögreglan á Íslandi enga beiðni fengið

Edda Björk Arnardóttir og þrír synir hennar af sjö börnum …
Edda Björk Arnardóttir og þrír synir hennar af sjö börnum í allt. Ljósmynd/Aðsend

„Ég talaði við lögregluna á Íslandi í dag, sem staðfesti að það hafi aldrei komið beiðni um að birta mér stefnu,“ segir Edda Björk Arnardóttir, sem hefur átt í forræðisdeilu við barnsföður sinn í Noregi. 

Norsk lög­reglu­yf­ir­völd tjáðu lögmanni Eddu með bréfi í gær að þau hafi beðið íslensk stjórnvöld um að hún skuli vera handtekin og framseld til Noregs. 

„Það er lögreglan á Íslandi sem myndi fá beiðni frá norskum yfirvöldum, um að birta mér stefnu. Þeir hafa aldrei verið beðnir um að birta mér stefnu. Svo það sem stendur í þessu bréfi er ekki satt,“ segir Edda í samtali við mbl.is. Hún segir framgönguna bera vott um yfirgang og frekju norskra yfirvalda sem reyni að stytta sér leið í málinu.

Hafi ekki reynt að birta stefnu

Edda nam á brott þrjá drengi sína frá suður­hluta Nor­egs til Íslands í óþökk föður­ins. Lands­rétt­ur staðfesti úr­sk­urð Héraðsdóms Reykja­vík­ur fyrr á ár­inu um að syn­irn­ir skyldu tekn­ir úr um­sjá henn­ar og þeir færðir aft­ur til föður síns í Nor­egi. Hef­ur Edda þó kært niður­stöðu ís­lenskra dóm­stóla til Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu.

Barnsfaðir Eddu hefur höfðað refsimál vegna þessa í Noregi og eru réttarhöldin áætluð í kringum septemberlok. Hún hefur dvalið á Íslandi síðastliðna 6 mánuði og því hefði verið einfalt að hafa samband.  

„Þeir hafa aldrei reynt að birta mér stefnu og það hefur alltaf verið hægt að finna mig og ná í mig,“ segir hún og bætir við að fyrsta skref hjá lögreglu sé ávallt að hafa samband við lögmann þess sem á í hlut.

Reyna að stytta sér leið

„Norsk yfirvöld gerðu það ekki fyrr en þau sendu lögmanninum mínum þetta bréf. Við vissum alveg af réttarhöldunum og það er alveg búið að undirbúa þau, En þau hafa aldrei stefnt mér til þess að mæta. Ekki haft samband við lögmanninn minn úti, né á Íslandi. Engan. Síðan senda þau þetta bréf og fara fram á að ég verði framseld þar sem þeir hafi ekki náð að stefna mér. Sem eru bara ósannindi.“

Hvers vegna er gengið svona fram?

„Ég veit það ekki. Þau reyndu þetta í fyrra, að fá mig framselda til Noregs með ósannindum, sem voru síðan tekin fyrir, fyrir dómstólum á Íslandi og ég var ekki framseld vegna þess að þetta féll um sjálft sig. Þau eru ekki að fara réttar leiðir að hlutunum og gera nákvæmlega það sama núna. Þau segja ekki satt í þessu bréfi. Þau vilja fara styttri leið til þess að fá mig heim. Það fer mjög fyrir brjóstið á þeim að ég hafi náð í strákana. Og þá á að reyna yfirgang eins og þennan.“

Í lokin bætir Edda við:

„Það er verið að fara fram með dólg og yfirgangi og vonast til þess að því verði hlýtt. Þetta er alvarlegt því þetta er brot á reglum um alþjóðleg samskipti, að gera hlutina með þessum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert