Mikilvægt að halda uppi samgöngum og störfum

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir birtingu útboðs á rekstri Breiðarfjarðarferju …
Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, segir birtingu útboðs á rekstri Breiðarfjarðarferju svo nýja að ekki sé hægt að segja til um lokaniðurstöðu samninga. Kristinn Magnússon

„Það þarf bara að koma í ljós hvort það er grundvöllur fyrir samningum,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar um tilboð Sæferða á nýrri Breiðarfjarðarferju.

„Þannig er það yfirleitt þegar það er bara eitt tilboð, þá eru alla vega ekki nein samkeppnissjónarmið sem þarf að velta fyrir sér. Þá þurfa aðilar aðeins að átta sig á stöðunni.“

Öllum starfsmönnum Sæferða var sagt upp í gærkvöldi þar sem óvissa ríkir um hvort samningar við Vegagerðina náist þar sem til­boð Sæ­ferða var talsvert yfir kostnaðaráætl­un Vega­gerðar­inn­ar. Begþóra segir birtingu útboðsins svo nýja að ekki sé hægt að segja til um lokaniðurstöðu samninga.

Þurfa að bera saman bækur sínar

Í samtali við mbl.is segir Bergþóra mikilvægt að meta stöðuna og eiga samtöl við þann sem býður í reksturinn. Þegar aðeins eitt tilboð berst, megi setjast niður og endurskoða ýmis atriði til að sjá hvort hægt sé að semja, breyta eða leiðrétta.

„Ég er sammála framkvæmdastjóra Sæferða með það að auðvitað setjumst við niður og förum aðeins yfir. Þetta er kostnaðaráætlun sem við gerum og þau gera og við þurfum að bera saman bækur okkar,“ segir Bergþóra. 

Mikilvægir hagsmunir í húfi

Vegagerðin muni hafa eins hraðar hendur og auðið er að því að komast að samningum, enda séu mikilvægir hagsmunir í húfi. Niðurstaðan sé hins vegar aðeins sólarhringsgömul og rétt eins og hjá flestum stofnunum og fyrirtækjum séu enn margir í sumarfríi. 

„Öllum er ljóst að það er mikilvægt að halda uppi samgöngum og það er mikilvægt fyrir aðila að halda störfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert