Ráðist á gróðureldana af krafti

Slökkviliðsmaður að störfum við gosstöðvarnar nýverið. Aukinn kraftur verður settur …
Slökkviliðsmaður að störfum við gosstöðvarnar nýverið. Aukinn kraftur verður settur í aðgerðir gegn gróðureldunum í dag. mbl.is/Hákon

Slökkviliðið í Grindavík fer í dag í sínar stærstu aðgerðir gegn gróðureldunum á Reykjanesskaga síðan gos hófst við Litla-Hrút. Um fjórir ferkílómetrar af gróðurlandi hafa þegar orðið eldinum að bráð við gosstöðvarnar en slökkviliðsmenn hafa nú ekið með mikið magn af vatni að gróðureldunum. Áformað er að ráðast á gróðureldana af krafti í dag.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að slökkviliðið ætlaði að nýta tímann til að selflytja vatn með tankbílum að gróðureldasvæðinu svo að þeir hafi meira vatnsmagn til notkunar í dag. „Við erum að breyta um taktík. Við komum nú meira vatnsmagni upp eftir í trukkum.“

Almennt hafa verið um 15 til 20 slökkviliðsmenn við vettvang á hverjum degi en Einar segir að það megi búast við auknum mannskap við gosstöðvarnar í dag.

„Það mun fjölga töluvert í liðinu, við erum með meira vatn og þá verður meira afl sett í þetta,“ segir Einar og bætir við að slökkviliðið hafi hingað til að mestu leyti flutt vatn að svæðinu með þyrlu. Þó hafi þeir flutt eitthvert vatnsmagn með bílum en leggja nú meiri áherslu á það. Hann kveðst ekki viss um hversu mikið magn á að flytja að gosstöðvunum, því meira því betra. „Hver tankur rúmar um 8-10 þúsund lítra þannig að það er fljótt að muna um nokkrar ferðir,“ segir hann.

Vindáttin hagstæð

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að við gosstöðvarnar megi búast við suðaustlægri vindátt sem blæs 8-13 metra á sekúndu og komi til með að blása gasmenguninni á haf út. Hins vegar sé engin rigning í kortunum. Minniháttar rigningu var spáð í fyrrinótt en þó á hún ekki að hafa mikil áhrif á gróðureldana.

Einar Sveinn segir suðaustlæga vindátt afar hagstæða fyrir slökkvistörfin, með tilliti til þess að reykurinn blási ekki í áttina að slökkviliðsmönnum, þar sem þeir nálgast gosið frá Suðurstrandarvegi.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert