„Þetta er náttúrulega mjög leiðinleg staða og leiðinlegt gagnvart starfsfólkinu okkar,“ segir Jóhanna Ósk Halldórsdóttir, forstjóri Sæferða, um uppsagnir starfsfólks á Breiðarfjarðarferjunni Baldri.
Spurð segir Jóhanna aðdragandann hafa verið langan enda hafi fyrirtækið beðið eftir birtingu útboðsins mjög lengi.
Aðspurð segir hún vissulega þungt að þurfa að greina starfsfólkinu frá stöðunni á starfsmannafundi sem fór fram í gærkvöldi. Hún telji að margir hafi verið meðvitaðir um að eitthvað slíkt væri í vændum og fregnirnar því ekki komið öllum á óvart. Samtalið hafi á heildina litið verið gott og starfsfólk sýnt mikinn skilning.
„Það er mjög góður hópur hjá Sæferðum sem hefur unnið þarna mjög lengi, svo auðvitað er leiðinlegt að færa þeim svona fréttir,“ segir Jóhanna.
Jóhanna minnir á að ný ferja taki til starfa í október. Það þurfi áfram að manna hana hver sem rekstraraðilinn verði. Hún bindi því vonir við að flestir ef ekki allir fái starf um borð á henni, en hún telur það líklegra en ekki. Aðspurð hvort hún telji það líklegt að allir starfsmenn myndu samþykkja boð um starf á nýju ferjunni, kveðst hún gera fastlega ráð fyrir því.
Hún segir þó óvissu enn ríkja um samninginn við Vegagerðina sem muni gefa sér tíma fram að 8. september til að taka afstöðu til tilboðsins. „Línur ættu að skýrast í síðasta lagi þá.“