Sex orrustuþotur þýska flughersins eru væntanlegar á Íslands á föstudag og 30 liðsmenn flugsveitar þýska flughersins mæta í dag. Tilefnið er að stunda æfingar sem og að kynna sér betur aðstæður hér á landi.
Áætlað er að orrustuþoturnar, sem eru af gerðinni Eurofighter Typhoon, verði til 10. ágúst að æfingum hér á landi.
Í facebook-færslu Landhelgisgæslu Íslands segir að sveitin hafi aðsetur á öryggissvæðinu í Reykjanesbæ og muni æfa með stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli.
„Æfing þýska flughersins er mikilvægur liður í því að efla stöðuvitund og þekkingu á aðstæðum á Íslandi og treystir tvíhliða varnarsamvinnu ríkjanna,“ segir meðal annars í færslunni.
Landhelgisgæsla Íslands annast, í umboði utanríkisráðuneytisins, framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia.