„Gæti verið í þessari stöðu að eilífu“

Þróttarar komu saman í gær á aðalvelli félagsins, til þess …
Þróttarar komu saman í gær á aðalvelli félagsins, til þess að sýna Isaac stuðning í verki. mbl.is/Hákon

„Strangt til orða tekið þá getur hann verið í þessari stöðu að eilífu,“ segir Helgi Þorsteinsson Silva, lögmaður Isaacs Kwateng. 

„Hann er einn af þeim sem sótti um alþjóðlega vernd, fékk neikvæða niðurstöðu og er nú í þeirri stöðu að vera í umborinni dvöl svokallaðri,“ segir Helgi

Isaac kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd. Umsókn hans var síðar hafnað og honum neitað um endurupptöku umsóknarinnar. Isaac sem er með tímabundið dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi, starfar sem vallarstjóri hjá Þrótti og stendur alfarið á eigin fótum. 

Umborin dvöl er hugtak sem notað er yfir einstaklinga sem hafa fengið lokasynjun á umsókn um alþjóðlega vernd, en íslensk stjórnvöld geta ekki framkvæmd brottflutning þeirra úr landi vegna sértækra og fjölbreyttra aðstæðna, að því er fram kemur á vef Rauða Krossins

Helgi telur umborna dvöl vaxandi vandamál hér á landi, enda komi fólk í þeirri stöðu alls staðar að lokuðum dyrum í kerfinu. „Fólk kemur til landsins og sækir um alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi í góðri trú. Síðan þegar það fær neikvæða niðurstöðu, þá er það búið að vera of lengi á landinu til þess að sækja um aðrar leiðir, þá er bara allt lokað“ segir Helgi. 

Þetta er bara biðstaða

Spurður um framhaldið segir hann að nú hafi Isaac verið að nýta sér bráðabirgðaatvinnuleyfi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd, „hann er því ekki að sækjast eftir neinni aðstoð frá ríkinu,“ segir Helgi og bætir við, „hann einfaldlega sýnir á pappír að hann er sá einstaklingur sem hann segist vera, er með vinnu og húsnæði, tryggir sig sjálfur og sækir um heilbrigðistryggingar.“

„Þá er hann búinn að sýna fram á það að hann þurfi ekkert frá kerfinu og má þá vinna,“ segir Helgi og lýsir fyrir blaðamanni að „strangt til tekið geti hann verið í þessari stöðu að eilífu, en fær engin réttindi og safnar engum réttindum á móti.“

Til útskýringar segir Helgi að á meðan staðan er þessi, safnast tíminn ekki upp í ótímabundið dvalarleyfi, ríkisborgararétt eða „nokkuð annað, þetta er bara biðstaða.“ 

Ótrúlega margir í sömu stöðu

Helgi hefur starfað á þessu sviði lögfræðinnar í fjölda ára og lengi velt því fyrir sér hvað er hægt að laga. Pólitískt séð telur hann vel hægt að ná samstöðu frá hægri og vinstri um að opna atvinnuleyfa kerfið, þar sem „hægri sinnaðir vilja almennt opið atvinnuleyfa kerfi og vinstri sinnaðir almennt opnari útlendingagjöf“

Telur hann því leiðina áfram vera að „hafa þetta ekki svona strangt.“ Fullt af hans skjólstæðingum eru komnir með vinnu, „ekki af einhverri ölmusu,“ segir hann, heldur vegna þess að atvinnurekendur vilja fá fólkið í vinnu og geta jafnvel skaffað húsnæði. Samt sem áður fæst oftar en ekki neitun. 

Allt vald tekið af þeim

Hann segir miður hversu margir eru í sömu stöðu og Isaac. „Þeim er nánast stýrt í hæliskerfið,“ segir Helgi sem myndi heldur vilja sjá fólki stýrt í atvinnuleyfa kerfið. Einungis vegna þess að fólk hefur 90 daga til þess að sækja um hverskyns leyfi, frá því að það kemur hingað til lands, ef það gengur ekki þá er alltaf hægt að sækja um hæli, „þær dyr lokast aldrei,“ segir Helgi.

Sæki fólk um hæli þá lokast dyr þeirra að öllum öðrum leyfum. Vegabréfið gert upptækt, fólki sagt „hér býrð þú núna“ og gefið kort til þess að fara til læknis. „Allt vald tekið af þeim,“ segir Helgi. Síðan er þeim neitað að sækja um önnur leyfi, eða endurupptöku á alþjóðlegri vernd, enda búin að vera allt of lengi á landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert