Óraunhæft að tala um bann við blóðtöku

Dýraverndunarsamband Íslands hefur greint frá því að þeim hafi borist …
Dýraverndunarsamband Íslands hefur greint frá því að þeim hafi borist áreiðanlegar upplýsingar um að fleiri hryssur hafi drep­ist í tengsl­um við blóðtök­una í fyrra en áður var talið. Samsett mynd

Vigdís Ósk Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, segir óraunhæft að tala um að banna blóðtöku úr fylfullum hryssum. Samtökin hafi ekki þær upplýsingar sem Dýraverndunarsamband Íslands (DÍS) vísar til í sambandi við atvinnugreinina.

Í tilkynningu frá DÍS í gær segir að þeim hafi borist áreiðanlegar upplýsingar um að mun fleiri hryssur hafi drep­ist í tengsl­um við blóðtök­una í fyrra en áður var talið. Óreyndir erlendir dýralæknir hafi sinnt blóðtökunum og þetta skapað hættulegar aðstæður.

Fer sambandið því fram á tafarlausa stöðvun blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Ný reglugerð uppfylli kröfur um dýravelferð

„Við höfum engar staðfestar upplýsingar um það sem Dýraverndunarsambandið vísar til. Hins vegar ef það eru einhver gögn sem Matvælastofnun tekur til skoðunar þá munum við kalla eftir slíkum upplýsingum þegar stofnunin hefur unnið úr þeim,“ segir Vigdís í samtali við mbl.is.

Þá segir Vigdís atvinnugreinina hafa verið tekna til heildarendurskoðunar á síðasta ári eftir að mikil umræða skapaðist um dýravelferð í sambandi við atvinnugreinina. Hún telur að ný reglugerð, sem sett var í kjölfarið, uppfylli kröfur um dýravelferð.

Skoða megi brotalamir

„Ef það eru einhverjar brotalamir á framkvæmdinni þá þarf að skoða það sérstaklega. Það er hins vegar óraunhæft að tala um að banna atvinnugreinina áður en forsendur fyrir því liggja fyrir.“

Þá tekur Vigdís fram að bændur komi sjálfir ekki að ákvörðunartöku varðandi það hvaða dýralæknar framkvæmi blóðtökuna. Sú ákvörðun sé í höndum annarra aðila.

Hún gerir ráð fyrir því að MAST afhendi samtökunum upplýsingarnar, sem DÍS hefur undir höndum, þegar þær hafa borist.

„Við verðum síðan í sambandi við þá bændur sem eru í þessum búskap og munum halda þeim upplýstum um stöðuna,“ segir Vigdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert