„Óumdeilanlega umboðslaus“

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og Steindór R. Haraldsson, annar …
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, og Steindór R. Haraldsson, annar varaforseti kirkjuþings. Samsett mynd

Steindór R. Haraldsson, annar varaforseti kirkjuþings, segir í samtali við mbl.is að biskup Íslands, sé óumdeilanlega umboðslaus og að það sé vegna ákvarðanafælni kjörstjórnar þjóðkirkjunnar.

Steindór hefur starfað innan kirkjunnar í hálfa öld og setið í löggjafarnefnd kirkjuþings frá árinu 2010.

Kirkjuþing hefði getað breytt regluverkinu

„Ég tel að biskup sé umboðslaus. Það hefði þurft að boða til kosninga,“ segir hann.

Steindór segir aðeins einn annan hátt hafa getað gengið en það er að kirkjuþing hefði breytt regluverkinu, að minnsta kosti til bráðabirgða.

„Starfsreglur um kosningu biskups og vígslubiskupa eru lagaígildi og það er ekki hægt að breyta lögum nema kirkjuþing breyti þeim. Það getur enginn annar gert það og það getur enginn einn maður ákvarðað það að láta gera ráðningarsamning við sig um að sitja áfram í þjónustu.

Ég tel reyndar álitamál hvort biskup sé umboðslaus frá 1. júlí á síðasta ári eða 1. júlí í ár. Drífa Hjartardóttir var starfandi forseti þingsins og hún taldi að uppi væri réttaróvissa um þessi mál og beitti neyðarrétti til að framlengja þjónustu biskups um eitt ár. Það var alla vega viðleitni til að leysa málið en sá neyðarréttur gengur auðvitað ekki tvisvar. Þannig tel ég að það sé fullljóst að kjörtímabil biskups rann út 30. júní á þessu ári.“

Það var eitt sinn leyfilegt að keyra á 50

Það var einu sinni svo að sögn Steindórs að biskup réð því sjálfur hvenær hann lyki þjónustu.

„Biskupinn er í þeim sporum að hún ræður ekki lengur hvenær hún situr í stóli biskups Íslands. Það er búið að breyta lögum og ákveða að biskup lúti ákveðnu kjörtímabili og búið að ákveða að svo skuli vera.

Það var eitt sinn leyfilegt að keyra á 50 kílómetra hraða á klukkustund innan bæjarmarkanna hér á Skagaströnd en ég þarf að sætta mig við að keyra á 30 kílómetra hraða í dag þó það hafi verið leyfilegt að keyra á 50 fyrir einhverjum árum.“

Það þýðir ekkert að kenna öðrum um

Steindóri þykir ótækt að klína klúðrinu á ríkið og dómsmálaráðuneytið.

„Það þýðir ekkert að kenna öðrum um alla hluti. Þetta er bara nýr veruleiki sem er jafn nýr fyrir ríkið og fyrir kirkjuna. Kirkjan ber fullkomna ábyrgð sjálf á sínum gjörðum. Það var verið að breyta þjóðkirkjulögum til þess að kirkjan fengi í hendurnar alla þá stjórnsýslu sem hún þarf til þess að geta sinnt sínum málum.

Það er ekkert kirkjuþing starfandi, það er ekki búið að kalla það saman. Það er ekki löglegt fyrr en búið er að samþykkja kjörbréfin. Það er ekki búið að kjósa forseta þingsins og ekki forsætisnefndina. Þetta er vegna þess að við erum að horfa upp á nýja hluti og það er ekkert meira ríkinu að kenna en okkur sjálfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert