„Við þurfum bara að passa okkur að brenna ekki“

Einar segir gott að vinna í blíðviðrinu, þó þurfi slökkviliðsmenn …
Einar segir gott að vinna í blíðviðrinu, þó þurfi slökkviliðsmenn að passa sig að brenna ekki. mbl/Hákon Pálsson

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðstjóri í Grindavík segir slökkvistörfum hafa verið slitið í kring um miðnætti í gær. Áform höfðu verið um að hafast við slökkvistörf yfir nóttina til að ráða niðurlögum eldanna fyrir fullt og allt, en að sögn Einars reyndist verkið einum of stórt og mannskapurinn sendur heim til að hvíla sig. Þeir hefji hins vegar störf á ný í dag.

„Verkið var það mikið að við ákváðum að stoppa á miðnætti og halda svo áfram núna í blíðunni,“ segir Einar í samtali við mbl.is. „Þetta er bara vinna og tekur tíma.“

Aðspurður hvort hann telji að verkið takist endanlega í dag kveðst hann ekki geta svarað því. „Við stefnum náttúrulega á það á klára þetta, hvenær sem það tekst. Hvort sem það er í dag eða á morgun,“ segir Einar og bætir við að allt stefni í rétta átt og eldinum fari minnkandi.

Spurður kveðst hann taka smá rigningartímabili fagnandi, þó svo að gott sé að vinna í blíðviðrinu. „Við þurfum bara að passa okkur að brenna ekki,“ bætir hann við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert