Bændasamtökin styðja notkun kannabislyfja

Verkefnið gæti skapað ný tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði.
Verkefnið gæti skapað ný tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði. Ljósmynd/AFP

Bændasamtök Íslands styðja frekari rannsóknir á möguleikum til notkunar og hagkvæmni ræktunar lyfjahamps og kannabislyfja á Íslandi í lækningarskyni.

Þetta kemur fram í umsögn Bændasamtaka Íslands við þingsályktunartillögu velferðarnefndar Alþingis um þróunaráætlun og tilraunarverkefni fyrir ræktun lyfjahamps og notkun kannabislyfja í lækningaskyni sem var lögð fram á vorþingi.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði tillöguna fram fyrir þingi en meðal meðflutningsmanna eru þó nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Pírata og Flokk fólksins. 

Reiðubúnir til frekara samráðs

„Bændasamtök Íslands styðja það meginefni þingsályktunartillögunnar að setja á laggirnar starfshóp til að kanna breytingar á regluverki, sem gera eigi það kleift að hefja rannsóknir á möguleikum til notkunar og hagkvæmni ræktunar slíkra plantna á Íslandi í lækningaskyni,“ segir í umsögn Bændasamtaka Íslands.

Jafnframt er tekið fram að fulltrúar bændasamtakanna séu reiðubúnir til frekara samráðs og samtals um fyrrgreind atriði.

Stefna stjórnvalda og heilbrigðiskerfisins varðandi kannabisefni hér á landi þarfnast talsverðrar umræðu og þess að grundvöllur verði skapaður til frekari rannsókna, hvort sem er á ræktun plantnanna Cannabis sativa og Cannabis indica eða annarra plantna sem eru þeim skyldar,“ segir í þingsályktunartillögunni.

Ekki réttlætanlegt að meina sjúklingum um aðgang

Í tillögunni er vísað til álíka tilraunarverkefnis sem stendur nú yfir í Danmörku og er tekið fram að verkefnið er til þess gert að skapa ný tækifæri til nýsköpunar í landbúnaði. 

Niðurstaða úttektar verkefnisins í Danmörku sem var unnin af danska heilbrigðisráðuneytinu var sú að verkefnið þótti veita góða og örugga umgjörð um notkun kannabis sem lyfs í læknisfræðilegum tilgangi.

Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar leggja til að heimilt verði á grundvelli sérstakrar þróunar- og tilraunaáætlunar að framleiða virk efni úr kannabis í læknisfræðilegum tilgangi [...]. Hér er ekki lögð til lögleiðing á kannabis eða afglæpavæðing kannabisefna,“ segir í tillögunni og er einnig tekið fram að það sé ekki réttlætanlegt að meina sjúklingum um aðgang að kannabisvörum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert