Rákahöfrung rak á land á Hvalfjarðarströnd við bæinn Bjarteyjarsand sl. miðvikudag. Frekar sjaldgæft er að finna rákahöfrung við Íslandsstrendur en þetta er í tíunda skipti sem slíkan höfrung rekur á land á Íslandi.
Arnheiður Hjörleifsdóttir, íbúi á Bjarteyjarsandi, segir í samtali við mbl.is að hún hafi orðið vör við höfrunginn þegar hún var á leið í sjósund ásamt vinkonum sínum fyrir neðan bæinn.
Hún hafði tafarlaust samband við viðeigandi aðila og tilkynnti fundinn. Sérfræðingur Hafrannsóknastofnunar kom þá á vettvang og flutti hræið á brott til frekari rannsókna.
„Þetta er bara beint fyrir neðan bæinn okkar. Hann fór ekkert framhjá neinum. Ég leitaði fyrst ráða hjá Heilbrigðiseftirlitinu og spurði hvað maður ætti að gera.
Hann sagði mér að það væri best að tilkynna fyrst til lögreglunnar. Lögreglan sér síðan um að upplýsa hlutaðeigandi aðila, eins og Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun, sveitarfélagið og Hafrannsóknarstofnun.“
Sérfræðingur stofnunarinnar sagði henni að þetta væri í tíunda sinn sem rákahöfrung ræki hér á land. Sérfræðingurinn mældi og skoðaði höfrunginn á vettvangi og reyndist um tveggja metra langt karldýr að ræða.