Hvernig voru samskiptin?

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir er biskup Íslands en óvissa hefur …
Sr. Agnes M. Sigurðardóttir er biskup Íslands en óvissa hefur verið uppi um umboð hennar til embættis. Lögmaður biskups, Einar Hugi Bjarnason hrl, segir umboð hans ótvírætt. Drífa Hjartardóttir er forseti kirkjuþings og Anna Mjöll Karlsdóttir er formaður kjörstjórnar þjóðkirkjunnar. Samsett mynd

Ákveðin réttaróvissa var uppi um þjónustutíma Sr. Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, eftir 30. júní árið 2022 þegar seinna fimm ára kjörtímabili hennar lauk.

Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, beitti neyðarrétti í samráði við biskup og framlengdi þjónustutíma Agnesar um eitt ár. Hún staðfesti gjörðina með bréfi til biskups dags. 29. júní 2022 þar sem hún túlkar regluverk þjóðkirkjunnar með þeim hætti að biskup skuli gegna þjónustu til 30. júní 2023.

Þá segist hún í bréfinu munu beita sér fyrir því að forsætisnefnd sú sem kosin yrði á næsta kirkjuþingi leggi fram þingmál sem feli í sér að þingið ákvarði um biskupsþjónustu þjóðkirkjunnar frá og með 1. júlí 2023.

Í kjölfarið hófust bréfaskriftir á milli stofnana þjóðkirkjunnar. Mbl.is hefur bréfin milli stofnana þjóðkirkjunnar undir höndum.

Lögmaður biskups hafnar túlkun forseta kirkjuþings

Einar Hugi Bjarnason hrl, lögmaður biskups Íslands, hafnaði túlkun forseta kirkjuþings með bréfi til kirkjuþings dags. 21. október 2022. Sagði hann munnlegan ráðningarsamning í gildi milli biskups og þjóðkirkjunnar frá 1. janúar 2020 eftir tilfærslu biskups sem embættismanns á vegum ríkisins til þess að vera starfsmaður þjóðkirkjunnar. Sagði lögmaðurinn að þar sem ekki hafi verið kveðið á um kjörtímabil biskups fyrr en með starfsreglum sem tóku gildi 1. janúar 2022 væri nærtækast að túlka kjörtímabil biskups til sex ára frá 1. janúar 2022 eða við samþykkt þeirra 28. mars 2022, en starfsreglurnar tóku gildi afturvirkt.

Þannig sagði lögmaðurinn í bréfinu að biskup hefði að óbreyttu rétt til að gegna embættinu í sex ár, þó að teknu tilliti til starfsloka vegna aldurs, eða fram til 31. desember 2028 eða til 27. mars sama ár. Athygli vekur að þarna virðist um einhvern misbrest á dagsetningum að ræða hjá lögmanninum en hann á að sjálfsögðu við 31. desember 2027.

Mun biskup láta af störfum?

Kjörstjórn þjóðkirkjunnar óskaði, með bréfi til forsætisnefndar kirkjuþings dags. 1. febrúar 2023, eftir upplýsingum um það hvort biskup muni láta af störfum um mitt árið 2023 eða hvort framhald verði á þjónustu hans og hvenær ákvörðun þar um liggi endanlega fyrir vegna undirbúnings hugsanlegra biskupskosninga.

Óskaði ekki umfjöllunar um þjónustutíma sinn

Forsætisnefnd kirkjuþings svaraði bréfum kjörstjórnar og lögmanns biskups með bréfum dags. 28. febrúar. Þar vísaði nefndin til orða biskups í nýársávarpi sínu um að biskup hyggist láta af embætti 1. júlí árið 2024. Segir nefndin að biskup hafi „ekki óskað eftir því að forsætisnefnd leggi mál fyrir kirkjuþing 2022-2023 til umfjöllunar um þjónustutíma sinn“. Þannig myndi forsætisnefnd ekki leggja fram þingmál hvað það varðar á kirkjuþingi. Sagði nefndin það lögum samkvæmt vera í verkahring kjörstjórnar þjóðkirkjunnar að ákveða næstu skref varðandi biskupskjör í íslensku þjókirkjunni. Í bréfi sínu til lögmanns biskups sagði nefndin að forseti kirkjuþings hafi beitt fyrir sér neyðarrétti til að framlengja þjónustutíma biskups um eitt ár frá 1. Júlí 2022.

Biskupskosningar á næsta ári

Að lokum tilkynnti kjörstjórn þjóðkirkjunnar forsætisnefnd kirkjuþings með bréfi dags. 15. mars 2023 að það sé ekki í valdi kjörstjórnar að ákveða framlengingu á þjónustutíma biskups eftir 30. júní 2023. Þá segist kjörstjórn ráða af svarbréfi forsætisnefndar að hún fallist á með biskupi að umboð þjónustutími hans framlengist um eitt ár til viðbótar. Þannig muni kjörstjórn hefja undirbúning að kosningu biskups Íslands ekki síðar en í ársbyrjun 2024, að því tilskyldu að ekki verði gerðar athugasemdir við þau áform.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert