Loftgæði í lagi á höfuðborgarsvæðinu

Svifryksgildi voru há á höfuðborgarsvæðinu í gær.
Svifryksgildi voru há á höfuðborgarsvæðinu í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Loftgæði mælast viðunandi á höfuðborgarsvæðinu dag og eru öll gildi innan eðlilegra heilsuverndunarmarka. Ekkert bendir til þess að gosmengun muni berast yfir höfuðborgarsvæðið enda vindátt hagstæð hvað þetta varðar.

Þetta kemur fram í samtali mbl.is við Svövu S. Steinarsdóttur heilbrigðisfulltrúa hjá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Ekki von á gasmengun í dag né á morgun

„Eins og gasspá Veðurstofu Íslands lítur út núna þá er ekki von á neinni gosmengun núna í dag eða á morgun að öðru leyti en því að örlítill angi af mengun gæti snert ytri jaðra höfuðborgarsvæðisins við Hafnarfjörð í kringum hádegi á morgun.“

Loftgæði voru slæm á höfuðborgarsvæðinu í gær þegar gosmökkurinn barst þangað yfir og mældust svifryksgildi há að sögn Svövu. „Það mældust há gildi af fínu svifryki og svo sáum við líka hækkuð gildi brennisteinsdíoxíðs (SO2), sem er gastegund sem kemur frá eldgosinu.“

Þá fundu margir á höfuðborgarsvæðinu sterka lykt sem að sögn Svövu stafaði helst af reyk frá gróðureldunum sem geisa nú við eldgosið. 

Hægt er að fylgjast með loftgæðum á vef Veðurstofunnar og á loftgaedi.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert