„Yfirgnæfandi meirihluti starfandi presta styður ályktunina,“ segir Eva Björk Valdimarsdóttir, varaformaður Prestafélags Íslands, um ályktun sem félagið hefur sent frá sér vegna umfjöllunar um ráðningarsamning biskups.
Í ályktuninni kveðst stjórn félagsins styðja Agnesi Sigurðardóttur til að gegna embætti biskups Íslands.
Umfjöllunin snýr að ráðningu sr. Agnesar M. Sigurðardóttur biskups, sem ráðin var af undirmanni sínum, framkvæmdarstjóra Biskupsstofu, til þess að gegna embætti biskups tímabundið frá 1. júlí 2022 til og með 31. október 2024, eða í 28 mánuði.
Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið kom fram að afar óvenjulegt væri, ef ekki einsdæmi, að undirmaður ráði yfirmann sinn til starfa eins og gert var í þessu tilviki. Jafnframt hefur lögmæti samningsins, og umboð biskups til að gegna starfinu yfirleitt, verið dregið í efa.
Eva segir ljóst að Agnes njóti mikils stuðnings prestasamfélagsins. Hún segir að gat hafi orðið til í regluverkinu þegar breytingar voru gerðar á því og í kjölfarið „mistök sem kannski hefði átt að leiðrétta“.
Þá segir hún til skoðunar að kalla kirkjuþing fyrr saman, en þingið á ekki að koma saman fyrr en í haust.