Segir Agnesi njóta mikils stuðnings prestasamfélagsins

Kirkjuþing á að koma saman í haust.
Kirkjuþing á að koma saman í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Yfirgnæfandi meirihluti starfandi presta styður ályktunina,“ segir Eva Björk Valdimarsdóttir, varaformaður Prestafélags Íslands, um ályktun sem félagið hefur sent frá sér vegna umfjöllunar um ráðningarsamning biskups.

Í ályktuninni kveðst stjórn félagsins styðja Agnesi Sigurðardóttur til að gegna embætti biskups Íslands.

Umboð biskups dregið í efa

Umfjöllunin snýr að ráðningu sr. Agnesar M. Sig­urðardótt­ur bisk­ups, sem ráðin var af undirmanni sínum, framkvæmdarstjóra Biskupsstofu, til þess að gegna embætti bisk­ups tíma­bundið frá 1. júlí 2022 til og með 31. októ­ber 2024, eða í 28 mánuði.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið kom fram að afar óvenjulegt væri, ef ekki einsdæmi, að und­irmaður ráði yf­ir­mann sinn til starfa eins og gert var í þessu til­viki. Jafn­framt hefur lög­mæti samn­ings­ins, og umboð bisk­ups til að gegna starf­inu yf­ir­leitt, verið dregið í efa. 

Gat í regluverkinu

Eva segir ljóst að Agnes njóti mikils stuðnings prestasamfélagsins. Hún segir að gat hafi orðið til í regluverkinu þegar breytingar voru gerðar á því og í kjölfarið „mistök sem kannski hefði átt að leiðrétta“.

Þá segir hún til skoðunar að kalla kirkjuþing fyrr saman, en þingið á ekki að koma saman fyrr en í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert