Segir slysahættu hafa blasað við

Bæjarbúinn vissi ekki að karastæðan væri listaverk.
Bæjarbúinn vissi ekki að karastæðan væri listaverk. Ljósmynd/Lind D. Völundardóttir

Svo virðist sem listaverkinu, sem hvarf á Höfn í Hornafirði, hafi ekki verið stolið eins og fram kom í fréttum í gær. Íbúi á Höfn sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að sér hefði ekki verið ljóst að um hefði verið að ræða listaverk og hefði því látið fjarlægja það. Var um að ræða útilistaverk eftir Áslaugu Thorlacius sem ber heitið Tómarúm, en það samanstendur af stafla af fiskikörum.

Greindi íbúinn frá því að verkið hefði verið fjarlægt fyrir um þremur vikum. Fjötrarnir, sem héldu verkinu á sínum stað, hefðu losnað og því hefði slysahætta af því blasað við. Í framhaldi af því hefði lyftaramaður fjarlægt fiskikörin og farið með þau niður á bryggju. Segir íbúinn, sem rætt var við í gær, að hefði hann vitað að fiskikörin væru listaverk, hefði hann látið vita af lausu fjötrunum en ekki haft frumkvæði að því að fjarlægja karastæðuna. Bætir hann við að seint yrði litið á fiskikör úti á túni í sjávarplássi sem listaverk og því ekki furða að misskilningur hefði komið upp á milli manna.

Þá tók hann fram að hann hefði haft samband við lögreglu og gert grein fyrir aðstæðum og bætti við að þetta hefðu verið sakleysisleg mistök, en þó ekki, því það væri ekkert grín að fá yfir sig sex kara stæðu. Best hefði því verið að koma í veg fyrir það. Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við Morgunblaðið að lögreglunni hefði borist tilkynning um að verkinu hefði verið stolið, en engin kæra hefði verið lögð fram og ekki verið beðið um neinar sérstakar aðgerðir þessu tengt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert