Stjórnarskrá ekki í vegi fyrir ákæru gegn Ásmundi

Hauk­ur Arnþórs­son stjórn­sýslu­fræðing­ur segir synjun lögreglunnar um að veita gögn …
Hauk­ur Arnþórs­son stjórn­sýslu­fræðing­ur segir synjun lögreglunnar um að veita gögn um málið vera réttmæta. Samsett mynd

„Almennt verður ekki séð að ráðherrar eða alþingismenn séu einhvern veginn undanþegnir lögunum í svona málum. Að minnsta kosti ekki þegar Alþingi er ekki að störfum en þegar Alþingi er að störfum þá má ekki höfða mál gegn alþingismanni nema með samþykki þingsins.“

Þetta segir Hauk­ur Arnþórs­son stjórn­sýslu­fræðing­ur í samtali við mbl.is um Lambeyramálið svokallaða. Mál er höfðað með ákæru á hendur sakborningi.

Lambeyramálið varðar hatrammar ættardeilur innan fjölskyldu Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra. Hefur Ásmundur verið sakaður um innbrot og lögreglan á Vesturlandi verið sökuð um aðgerðarleysi gagnvart innbrotum og skemmdarverkum á jörðinni Lambeyrar.

Haukur segir fyrrgreint atriði, sem kemur fram í 49. grein stjórnarskrár Íslands, um að ekki sé hægt að höfða mál gegn alþingismanni á meðan þingið er að störfum vera sennilega það eina sem gerir að verkum að Ásmundur sé ekki með jafna stöðu miðað við almenning í máli sem þessu.

Ábúendur eigi rétt á upplýsingum

Eins og greint hefur verið frá synjaði lögreglan beiðni mbl.is að gögnum um málið og vísaði til stjórnsýslulaga og upplýsingalaga. Haukur segir mjög þröngan lagaramma vera til staðar fyrir lögreglu þegar það kemur að því að veita upplýsingar um tiltekin mál.

„Upplýsingaréttur almennings er mjög lítill eða enginn í svona málum. Hins vegar eiga aðilar máls upplýsingarétt svo að ábúendur á Lambeyrum eiga rétt á því að fá allar upplýsingar frá lögreglunni er þá varðar.“

Geta óskað eftir rökstuðningi

Haukur tekur fram að aðilar málsins, þ.e. þeir sem meint skemmdarverk og innbrot beinast gegn eða þeir sem sakaðir eru um meintan verknað, eigi hugsanlega rétt á rökstuðningi fyrir ákvörðunum lögreglu.

Ákvarðanir sem fela í sér að aðhafast ekki, gefa ekki út ákæru eða að fella mál niður, jafnvel á vettvangi, geta verið stjórnsýsluákvarðanir og þannig væri mögulegt að krefjast rökstuðnings með þeim.

Hann bendir jafnframt á að svona ákvarðanir megi kæra til saksóknara og óska eftir endurskoðun á þeim. 

Umfjöllun um málið breyti litlu

„Þá gæti saksóknari snúið við þessum ákvörðunum. Það er lagaleg skylda lögreglustjóra og saksóknara að sjá til þess að þeir sem fremja lögbrot sæti ábyrgð að lögum.“

Spurður hvort að það sé rýmri réttur að upplýsingum um sakamál ef rannsókn er lokið eða málið er á vitorði almennings svarar Haukur því nánast neitandi.

„Þó að málinu hafi verið lokað stendur bara eftir réttur aðila máls,“ segir hann og bætir við að þótt að aðilar máls tjái sig opinberlega um málið sé mjög þröng heimild í lögum fyrir því að lögregla geti tjáð sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert