„Allir dagar ættu að vera hreinsunardagar"

Blái naglinn hreinsar í Krossavík ásamt samtökunum Hampiðjunni og Seeds.
Blái naglinn hreinsar í Krossavík ásamt samtökunum Hampiðjunni og Seeds. Ljósmynd/Aðsend

Tómas J. Knútsson, stofnandi og eigandi umhverfisverndarsamtakanna Bláa hersins, hlaut í vikunni sjálfbærnisverðlaun Sameinuðu þjóðanna fyrir verkefni sem hann tók þátt í að búa til innan samtakanna, World Cleanup Day. 

Hann hefur verið hluti af alþjóðlegu umhverfisverndarsamtökunum Let's Do It World síðan 2013.

Á að hvetja fólk til að taka til

Tómas var einn af þrettán úr samtökunum sem settu daginn á laggirnar. Í samtökunum eru liðsmenn frá 164 þjóðum en dagurinn snýst um að fólk hvaðanæva úr heiminum taki til í umhverfi sínu. Hann ber upp þann 16. september í ár. 

„Þetta var mikil upplifun og mikill heiður, það voru um fimm þúsund umsóknir sem þurfti að vinna úr og einungis átta verkefni tilnefnd. Svo fer það þannig að okkar verkefni er þar á meðal og vinnur bara!“

Blái naglinn og Seeds að taka til í Garðskaga.
Blái naglinn og Seeds að taka til í Garðskaga. Ljósmynd/Aðsend

Verkefnið World Cleanup Day var sett á laggirnar árið 2018 og hefur þriðji laugardagurinn í september síðan þá gengið út á að hvetja fólk til að taka til í nærumhverfi sínu.

„Ég held að það hafi bara heppnast vel, en mér finnst persónulega að allir dagar ættu að vera hreinsunardagar því það er stórt og mikið verkefni að halda þessari plánetu okkar hreinni. Það væri náttúrulega toppurinn ef allir gætu bara gert sitt besta til að passa að það sé ekkert rusl í náttúrunni!“

Verðlaunin voru afhent í Róm á Ítalíu og segir Tómas það hafa verið einstakt að hitta svo marga sem eiga það sameiginlegt að vilja gera heiminn að betri stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert