Hraunbreiðan, sem runnið hefur upp úr jarðskorpunni við Litla-Hrút í nærri þrjár vikur, er nú þykkust á þremur stöðum þar sem kvikan hefur safnast fyrir í lægðum.
Á þessum stöðum er hraunflæðið að mynda hraunpolla, sem eru allt að 30 metra djúpir.
Frá þessu greinir rannsóknarstofa HÍ í eldfjallafræði og náttúruvá, eftir athugun sem gerð var þriðjudaginn 25. júlí.
„Hraunið flæðir frá gígum, í og gegnum pollana, meira og minna eftir lokuðum rásum,“ segir í færslu rannsóknarstofunnar á Facebook.
Þessar rásir myndi flutningskerfi undir yfirborði hraunbreiðunnar, sem að mestu leyti fylgi hraunrásinni sem fyrsti hrauntaumurinn myndaði á tímabilinu 10.-19. júlí.
Tekið er fram að til þess að hraun flæði að einhverju marki út úr Meradölum um skarð þurfi hraunbreiðan í norðausturhluta Meradala að þykkna um 3-4 metra.
Hækkandi yfirborð hraunpollanna gefi til kynna að hraunkvika sé að safnast fyrir í þeim. Ef útflæðið í pollinum verði minna en innflæðið, þá geti jaðrar hraunpollsins gefið eftir og hraunkvikan gusast út sem framhlaup, bæði yfir og út fyrir nýmyndað hraunið.
Talið er líklegt að flæði hrauns upp í gegnum gíginn nemi nú 5-6 rúmmetrum á sekúndu.
„Sem sagt það hefur dregið af afli gossins sem nemur 30-50% þessa síðustu viku. Ef framleiðnin heldur áfram að falla með sama hraða, þá eru goslok ekki langt undan – ein til tvær vikur?“