Drungalegra en ætti að vera vegna eldgossins

Eldgosið við Litla-Hrút hefur áhrif á veður á höfuðborgarsvæðinu.
Eldgosið við Litla-Hrút hefur áhrif á veður á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Drungalegra hefur verið síðustu vikur á höfuðborgarsvæðinu en ætti að vera undir venjulegum kringumstæðum vegna eldgossins við Litla-Hrút. Þetta staðfestir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Við sjáum dæmi um að það verður meira skýjað en spá gerir ráð fyrir ef það er eldgos. Við sáum það sumarið 2021. Þá hékk svona móðuslikja mikið yfir höfuðborgarsvæðinu sem var að mestu rakin til þess að það voru fleiri skýjaþéttikjarnar vegna eldgossins sem rakinn gat þést á,“ segir Elín aðspurð. 

Ekki endilega neikvætt

Hún tekur þó fram að þetta valdi því einnig að meðalhiti verði hærri en upphaflega er reiknað með þar sem það verður sjaldnar heiðskírt að nóttu til og þar með minni útgeislun frá yfirborðinu.

„Þetta hefur í sjálfu sér ekki endilega neikvæð áhrif en þetta veldur því að það sé sólarlítið.“

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur.
Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur. Ljósmynd/Almannavarnir

Ekki mikil mengun í byggð

Elín ítrekar að gasmengun frá eldgosinu sé mjög svipuð miðað við síðustu tvö gos á Reykjanesskaganum. Spurð hvort að Veðurstofunni hafi borist tilkynningar frá fólki sem kvartar undan lykt frá menguninni í byggð svarar hún því neitandi.

„Það skýrist væntanlega á því að það er búin að vera norðanátt að megninu til síðan að gosið hófst svo að gasið fer að mestu í suður en kemur svo aftur sem gosmóða einhverju síðar og þá er lyktin öðruvísi.“

Hún segir að loftgæðin á Reykjanesskaganum hafi verið ágæt síðan eldgosið hófst. 

„Það hefur kannski mælst eitthvað en engir háir toppar og engir háir toppar í byggð. Það hæsta sem hefur mælst er bara við gosstöðvarnar. Við höfum sloppið ágætlega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert