„Gengur ekki svona áfram“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að margt þurfi að breytast …
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að margt þurfi að breytast í stefnu ríkisstjórnarinnar. Samsett mynd

Elliði Vign­is­son, bæj­ar­stjóri Ölfuss, seg­ir í sam­tali við mbl.is að marg­ir hægri­menn séu farn­ir að túlka það sem svo að rík­is­stjórn­in sé lítið annað en samstaða um kyrr­stöðu og við það sé ekki leng­ur unað.

Hann tek­ur þó ekki und­ir áhyggj­ur Brynj­ars Ní­els­son­ar sem sagði í sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins að raun­veru­leg hætta væri á klofn­ings­fram­boði.

Er mik­il undir­alda meðal Sjálf­stæðismanna um að nú þurfi að end­ur­skoða rík­is­stjórn­ar­sam­starfið?

„Ég upp­lifi Sjálf­stæðis­flokk­inn al­mennt ekki þannig að það séu undiröld­ur í hon­um. Þetta er bara alda og hún er á yf­ir­borðinu. Það er eng­inn felu­leik­ur í kring­um þetta,“ seg­ir Elliði.

Það hafi alltaf legið fyr­ir, við mynd­un þess­ar­ar rík­is­stjórn­ar, að sam­starfið yrði hlaðið mála­miðlun­um en að nú virðist sem svo að þær séu um of.

„Mörg­um okk­ar finnst að mála­miðlan­irn­ar þurfi í það minnsta að styðjast við stjórn­sýslu­regl­ur og al­menn­ar leik­regl­ur í póli­tík, að stjórn­arsátt­mál­inn myndi fá  ráða en ekki geðþótta­ákv­arðanir,“ seg­ir Elliði og bæt­ir því að hann sé ekki bara að vísa í tíma­bundið hval­veiðibann Svandís­ar Svavars­dótt­ur mat­vælaráðherra.

Sjálf­stæðis­menn vilji fylgja fast­ar eft­ir í orku­mál­um, inn­flytj­enda­mál­um og fleiri mála­flokk­um.

Elliði segir að það sé nóg af góðu fólki í …
Elliði seg­ir að það sé nóg af góðu fólki í öll­um flokk­um en að nú þurfi rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir að gera það upp við sig hvert skuli haldið. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Vanti borg­ara­legu gild­in

„Ég tel að mörg­um hægri­mönn­um í land­inu finn­ist vanta þessi borg­ara­legu gildi, virðingu fyr­ir horn­stein­um sam­fé­lags­ins og upp­bygg­ing á því sem við telj­um að verði næstu fram­fara­skref fyr­ir þjóðina,“ seg­ir Elliði og bæt­ir því við að hann telji að mörg­um finn­ist sem þessi rík­is­stjórn, í ljósi þess hvernig hún sé sam­sett, sé far­in að bitna á Íslend­ing­um.

„Það er ekki akút mál að slíta þess­ari rík­is­stjórn, hún hef­ur staðið í sex ár og margt tek­ist mjög vel, en það er hins veg­ar akút mál að hún átti sig á því hver staðan er. Í mín­um huga þá geng­ur þetta ekki svona áfram.“

Elliði seg­ir að það sé nóg af góðu fólki í öll­um flokk­um en að nú þurfi rík­is­stjórn­ar­flokk­arn­ir að gera það upp við sig hvert skuli haldið.

„Ætla þeir að koma sér sam­an um að vinna að fram­fara­mál­um eða halda áfram kyrr­stöðu um ekki neitt? Ef svarið er kyrrstaða um ekki neitt þá er þessu langt­um bet­ur lokið en áfram haldið.“

Ekki sam­mála Brynj­ari

Brynj­ar Ní­els­son sagði í viðtali við Morg­un­blaðið að nú væri kom­in hætta á því að flokk­ur­inn myndi klofna. Elliði tek­ur ekki und­ir þær áhyggj­ur.

„Nei, ég tek ekki und­ir það og er þvert á móti mjög ósam­mála. Ég loka ekk­ert aug­un­um fyr­ir þeim mögu­leika en ég tel það alls ekki yf­ir­vof­andi. Það sem mér finnst yf­ir­vof­andi er þörf á því að borg­ara­lega þenkj­andi fólk og fram­faraþenkj­andi fólk fari að þjappa sér sam­an um þau gildi sem við höf­um séð að skila ár­angri fyr­ir þjóðina í gegn­um tíðina,“ seg­ir Elliði að lok­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert