Krían snýr aftur í friðland Gróttu

Minkar eiga auðvelt með að leynast í sjóvarnargörðum við ströndina …
Minkar eiga auðvelt með að leynast í sjóvarnargörðum við ströndina og veiða m.a. kríur af miklu offorsi. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það var ekkert kríuvarp í Gróttu í fyrra út af mink og síðan var ákveðið að herja á hann,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur. Með sérstöku leyfi Umhverfisstofnunar í vor var skyttu heimilað að skjóta minka innan friðlandsins í Gróttu enda um grimm dýr að ræða sem eira engu.

Þróuninni snúið við

Árangurinn af veiðunum lætur ekki á sér standa því krían hefur numið land í Gróttu á ný. „Þetta virðist hafa blessast og fyrstu ungarnir eru orðnir fleygir. Það er eins með varpið í Suðurnesi,“ segir Jóhann Óli en það er svæðið á Seltjarnarnesi sem er næst golfvellinum, Nesvelli. „Þar var allt lagt í rúst í fyrra.“ Á þeim slóðum horfir þó einnig til betri vegar og krían hvarf ekki af svæðinu eins og reyndin var í Gróttu. Þeir sem spila golf þar hafa ekki farið varhluta af ágangi kríunnar þegar hún ver unga sína af mikilli ákefð og á það til að blóðga kolla golfara.

Sjóvarnargarðar á svæðinu hafa reynst minkum mikilvægt skjól til að leynast og gera skyttunni á svæðinu erfiðara fyrir við að halda þeim í skefjum. „Það er svolítið erfitt að girða svæðið af.“

Jóhann Óli segir að vaxtarmöguleikar kríustofnsins séu mestir í Gróttu því Suðurnesið sé orðið fullsetið. Öflugt varp hafi átt sér stað í landinu nærri friðlandinu í sumar þar sem umferð ferðamanna sé þó mikil.

Umhverfisstofnun greip til skyndilokunar á mannaferðum um friðlandið sem átti að opna fyrir göngugörpum um miðjan júlí en það verður lokað út þennan mánuð til að veita fuglunum frið.

Jóhann Óli var staddur í Grímsey þegar Morgunblaðið náði tali af honum, með hóp erlendra fuglaljósmyndara. Því var ekki úr vegi að spyrja hann um ástand kríunnar almennt á öðrum landssvæðum. Hann telur afkomu stofnsins ágæta enda hafi hann notið þess að geta krækt sér í feit og falleg síli. Ungarnir eru að fara að verða fleygir þessa dagana.

„Það hefur gengið ágætlega við Reykjavíkurtjörn og í Grímsey þar sem er þó ekki alveg eins mikið varp og oft áður en það virðist vera töluvert.“ Annars staðar er staðan þó verri. „Ég frétti það að varpið hefði verið lélegt á Snæfellsnesi,“ segir Jóhann Óli og rekur það til skorts á fæðu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert