„Það er mjög gott að hann skuli hafa komið með þetta. Það myndi örugglega ekki öllum detta það í hug. Muhammed er fyrirmyndarborgari fyrir að hafa látið vita. Það er gæfumerki að finna skeifu.“
Þetta segir Guðrún Alda Gísladóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, um fornleifafund Muhammed Emin Kizilkaya, eins stjórnenda vefsíðunnar Severe Weather Europe.
Eins og greint hefur verið frá fann Muhammed aldaforna hestaskeifu þegar hann sótti gosstöðvarnar við Litla-Hrút tveimur dögum eftir að gosið hófst. Hann fór síðan með skeifuna til Fornleifastofnunar Íslands þar sem Guðrún gat skoðað skeifuna, sem virðist vera frá fjórtándu til nítjándu öld.
„Skeifur finnast oft svona á víðavangi svo þetta er ekki óalgengt að svona finnist. Það er gaman að þetta skemmtilega örnefni er þarna rétt við, Meradalir,“ segir Guðrún kímin. Hún kveður það ekki óeðlilegt að hestaskeifa finnist á þessum slóðum og bendir á að töluvert hafi verið um mannaferðir á svæðinu til forna.
Hún segir það mjög ánægjulegt að Muhammed hafi komið með forngripinn til Fornleifastofnunar Íslands og bendir á að jafnvel sumir Íslendingar viti kannski ekki hvað eigi að gera þegar þeir reka augun í hugsanlegar fornleifar.
„Reglan er sú að ef þú finnur forngrip þá áttu að tilkynna það, því að um leið og þú ert búinn að taka hann úr samhengi þá getum við svo lítið sagt um gripinn, en jafnframt ef forngripurinn er í hættu þá er um að gera að taka hann með. Það má alls ekki fara að grafa eftir þeim en það á að láta vita,“ segir hún en Muhammed segir í samtali við mbl.is að líklegast sé hraunið frá eldgosinu við Litla-Hrút nú komið yfir svæðið þar sem hann fann skeifuna.
Hún tekur fram að líklegast hafi ekki verið frekari minjar á staðnum þar sem Muhammed fann skeifuna. „Þar getur einhver hafa átt leið hjá, annað hvort ríðandi eða hestur hefur verið þarna járnaður og misst af sér skeifu.“
Hún segir að mikilvægar fornminjar hafi ekki farið undir hraun í eldgosunum þremur á Reykjanesskaga og bendir á að Minjastofnun hafi farið í átak um að skrá niður minjar í hættu á svæðinu og að engar þeirra hafi orðið kvikunni að bráð.
„Það er fylgst mjög grannt með því,“ segir Guðrún.
Guðrún segir nær ómögulegt að meta nákvæmlega hve gömul skeifan er og bendir á að hestaskeifur hafi í raun verið að mestu óbreyttar svo árhundruðum skipti.
„Þetta er einn af þessum hversdagslegu gripum sem eru tímalausir, þeir eru eins í árhundruð. Þetta er líka aðeins brot af gripnum. Það sem við vitum er að hestar voru ekki járnaðir í fornöld. Svoleiðis gripir hafa ekki fundist í víkingaaldarminjum og ekki heldur í gröfum fornmanna.
Það er eins og skeifur komi til eftir víkingaöld. Það má segja að fyrstu heimildirnar séu í Sturlungu og í Laxdælu. Þá er talað um að skóa hesta. Í rituðum heimildum á þrettándu öld þá eru skeifur komnar til.“
Hún tekur fram að frá þeim tíma hafi hestaskeifur lítið breyst, fram til ársins 1900.