Nú þegar sumarið stendur sem hæst og margir leggja land undir fót berast í auknum mæli fregnir af útbitnu fólki um land allt. Hérlendis er til dæmis starfrækt Facebook-síðan Lúsmý á Íslandi þar sem landinn getur leitað ráða um allt er varðar bit, „flugulítil“ tjaldsvæði og annað er viðkemur þessu tiltekna skordýri sem fæstum líkar við.
Um þessar mundir stendur yfir rannsókn á vegum Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar um háttalag og uppeldisstöðvar lúsmýsins en Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur styrkt þrjá nemendur sem vinna nú að þessari rannsókn.
Þá fer rannsóknin að hluta til fram í Kjós þar sem rannsakendur reyna að átta sig á því hvaðan flugurnar koma en markmiðið er meðal annars að komast að því hvar lirfurnar alast upp.
Lúsmýsins varð fyrst vart hér á landi fyrir um átta árum en upp á síðkastið virðist það vera að sækja í sig veðrið að sögn Gísla Más Gíslasonar, prófessors í vatnalíffræði.
Þá segir Gísli rannsóknina í raun vera þríþætta en rannsókn á þessum tiltekna bitvargi hefur ekki verið gerð áður, hvorki hér á landi né erlendis. Niðurstöður verða svo birtar á haustmánuðum en að sögn Gísla ríkir mikil spenna fyrir þeim.
„Í fyrsta lagi viljum við komast að því í hvaða búsvæðum lirfurnar lifa og hvar þær klekjast þá í fullorðnar flugur. Þá erum við að tala um þessa ætt en hún lifir yfirleitt í votlendi, í lækjum, tjörnum og mýlendi. Þessi tegund sem er að bíta okkur hefur aldrei verið rannsökuð eitthvað sérstaklega áður, hvorki hér á landi né annars staðar.
Þannig að við vitum ekki hvar lirfurnar alast upp. Við ætlum að komast að því og höfum verið með klakgildrur sem við setjum yfir mismunandi búsvæði og sjáum hvað þær veiða,“ segir Gísli og bætir við að fólk rekist á fluguna á því stigi þegar þroska þurfi eggin en til þess þurfi hún að sjúga blóð.
Þá segir Gísli að rannsakendur vilji einnig vita hvort flugurnar séu egg eða lirfur yfir veturinn en um það snúist að mestu fyrsti hluti rannsóknarinnar.
Í öðru lagi segir Gísli að rannsakað verði hvort skyldleiki sé á milli stofna á mismunandi stöðum á landinu.
„Er þetta einn stofn eða fleiri eða hugsanlega fleiri en ein tegund? Það eru margar tegundir af lúsmýi sem bíta spendýr þó það sé bara ein hér á landi sem við vitum um.“
Þá segir hann þriðja hluta rannsóknarinnar einnig snúast um erfðafræði, um rannsókn á erfðaefninu, og þá hvaða stofni í nágrannalöndunum lúsmýið sé skylt og hvaðan það komi.
Spurður að því hvers vegna sumir virðast lenda verr í lúsmýinu en aðrir segir Gísli það að mestu óþekkt. Þá segist hann ekki hafa séð neinar niðurstöður sem benda til þess að fólk í mismunandi blóðflokkum sé bitið mismikið.
„Ég veit að þeir sem hafa verið bitnir áður mynda þol gegn biti þannig að með tímanum verður þú lítið var við bitin. Menn vita samt af rannsóknum sem gerðar hafa verið á moskítóflugum að sum spendýr geta gefið frá sér efni sem hamlar lyktarskyni skordýrsins þannig að það finnur ekki hýsilinn til að sjúga blóðið,“ segir Gísli og bætir því við að hann vilji þó vara fólk við að bera mikið af ilmefnum á sig þar sem þau séu flest búin til úr blómum en auk blóðs þurfi þessi tilteknu skordýr einnig hversdagslega fæðu eins og blómasafa og því sé líklegra en ekki að ilmefnin laði flugurnar að.
Þekkt er meðal húsdýra að ýmsar flugur sem bíta beri með sér sjúkdóma og að sögn Gísla geta dýr eins og moskítóflugur og bitmý í hitabeltislöndum borið með sér sjúkdóma sem valda meðal annars blindu hjá fólki.
„Það er ekki bara malarían hjá moskítóflugunum heldur ýmsir veirusjúkdómar sem þær bera eins og japönsk heilahimnubólga, vírusinn frá Ross-ánni í Ástralíu og það eru margir sjúkdómar sem þessi dýr sem bíta geta borið en við vitum ekki til þess að þau séu að bera neitt hérna norðurfrá hjá okkur, lúsmýið eða bitmýið.
Það hefur enginn rannsakað það en það myndi hafa komið upp ef það væri hjá fólki en það gæti verið hjá einhverjum dýrategundum eins og öndum sem eru bitnar líka. Þetta vitum við bara ekkert um," segir Gísli og tekur fram að slíkt væri efni í alveg nýja rannsókn.
Spurður að því hvort von sé á skordýrum á borð við kribbur, drekaflugur eða moskítóflugur hingað til landsins svarar Gísli því til að nú þegar séu til kribbur á Íslandi.
„Kribburnar eru bundnar við gróðurhúsin en hafa verið hér frá því í kringum stríð. Kribbur eru bara grasætur og gera manninum ekkert. Eins hafa drekaflugur borist hingað, ein tegund sem á uppruna sinn í Afríku eða Litlu-Asíu, með háloftavindum en þær hafa aldrei getað sest hérna að.
Hins vegar er ég sjálfur svolítið hissa á því að moskítóflugurnar séu ekki komnar til landsins því það eru mjög margar tegundir í nágrannalöndunum, um 40 tegundir á Bretlandseyjum sem og í Skandinavíu, og einhverjar þeirra hljóta að hafa getað lifað hér á landi en svo virðist sem engin þeirra virðist hafa fundið réttu búsvæðin. Maður veit hins vegar aldrei hvernig þetta gerist, það þarf ekki marga einstaklinga af frjóum kvendýrum sem síðan verpa hér í einhverjar tjarnir. Svo má ekki gleyma því að þær geta borist hingað með flugvélum.“
Þá tekur Gísli fram að hingað til lands séu stöðugt að berast skordýr frá ýmsum ættbálkum þó við verðum að mestu lítið vör við þau nema þá kannski geitungana og humlurnar sem hafa orðið meira áberandi á síðustu áratugum. Þá skylst honum að skordýrategundum hér á landi hafi fjölgað um 400 á síðastliðnum 30 árum.