Ríkisstjórnin komin að ögurstundu

Ásmundur og Diljá finna fyrir hita í flokksmönnum.
Ásmundur og Diljá finna fyrir hita í flokksmönnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur ríkisstjórnina vera komna að ögurstundu. Mörg verkefni séu aðkallandi en að ríkisstjórnin hafi áður sýnt það í verki að hún getur látið gott af sér leiða.

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst skilja vel pirring flokksmanna. Ríkisstjórnin hafi samt sem áður verið mynduð utan um málamiðlanir. 

„Ég tek undir þær áhyggjur sem menn hafa á því að það sé ekki verið að taka almennilega á stórum málum eins og orkumálum, útlendingamálum og lögreglumálum. Ef við tökum ekki ákveðið á þessum málum þá erum við ekki að skila miklu af okkar vinnu,“ segir Ásmundur og bætir við:

„Ég held að á hverjum tíma þá eigi engin þjóð það skilið að það sitji aðgerðarlaus ríkisstjórn á stólunum.“

Þurfa að láta gott af sér leiða

Ásmundur segir ríkisstjórnina hafa látið gott af sér leiða og að samstarfið hafi heilt yfir verið ágætt síðustu sex árin. Ríkisstjórnin þurfi að halda áfram að taka á stóru málunum en þau séu nokkur.

„Við þurfum að halda áfram á þeirri braut að láta gott af okkur leiða. Við höfum ákveðið að fara í orkuskiptin og til þess þurfum við nýja orkugjafa. Þá er erfitt að sjá aðra fagna því þegar komið er í veg fyrir virkjanir og reynt að seinka fyrir þeim eins og hægt er,“ segir hann og heldur áfram:

„Sama með lögreglulögin. Við heyrum vikulega frá lögreglunni um vandamál sem felast í aðgerðum gegn alþjóðlegri skipulagðri samstarfi. Það er bara orðið mjög erfitt að taka þátt í aðgerðum því að við erum ekki með heimildir til að takast á við þessi vandamál.“

Ríkisstjórn Íslands. Stjórnarflokkarnir mælast með rúmlega 30% fylgi í nýjustu …
Ríkisstjórn Íslands. Stjórnarflokkarnir mælast með rúmlega 30% fylgi í nýjustu skoðanakönnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komið að ögurstundu

Segir hann að ásýnd ríkisstjórnarinnar í augum samfélagsins sé orðin sú að hún sitji með hendur í skauti.

„Mér finnst andinn í samfélaginu vera sá að ríkisstjórnin sé orðin aðgerðarlaus og að hún þurfi að láta að sér kveða, sérstaklega í þeim málum sem okkur finnst mjög aðkallandi. Ég held að það sé komið að ögurstundu í því að láta verkin tala, eins og þessi ríkisstjórn hefur áður gert, en núna hún virðist vera komin að strandi,“ segir hann að lokum.

Mynduð á málamiðlunum

Diljá Mist segir í samtali við mbl.is að hún skilji vel pirring flokksmanna og að fram undan séu stór mál, eins og efnahagsmálin.

„Ég skil vel pirringinn og hlusta eftir brýningunni frá flokksmönnum sem finnst við geta staðið okkur betur. Þetta er hins vegar sama samstarf og við fórum út í fyrir tveimur árum – samstarf sem var myndað um málamiðlanir. Samstarfsflokkarnir og það sem þeir standa fyrir þeir sömu,“ segir Diljá en bætir við:

„Við höfum þó náð árangri til að mynda í orkumálum og útlendingamálum síðastliðin tvö ár sem höfðu verið í kyrrstöðu. Þetta eru málaflokkar sem við höldum á og höfum haldið á og við eigum að halda áfram á þessari braut, standa fast á okkar. Fram undan eru síðan stór verkefni í efnahagsmálum þar sem okkur er best treyst, eins og við segjum gjarnan frá.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert