„Yfirleitt lendi ég í einhverju veseni. Þau missa mig þegar þau eru að lyfta mér, eða vilja ekki innrita mig því þau segja að batteríið í hjólastólnum sé ekki leyft,“ segir Inga Björg Margrétar Bjarnadóttir listfræðingur og aðgerðasinni, sem kom heim úr þrítugsafmælisferð með vinkonum sínum í gær.
Inga Björk fór út fyrir landsteinana með æskuvinkonum sínum á dögunum til þess að fagna þrítugsafmælum þeirra. Hún segir ferðalög erlendis undantekningarlaust meiriháttar átak og því velji hún vel þær ferðir sem hún fer í.
Ástæðan er sú að Ingu, eins og öðrum sem notast við hjólastól, býðst ekki að sitja í eigin hjólastól í flugi.
Þess í stað er þeim sem notast við hjólastól komið fyrir í svokölluðum gangastól, sem Inga segir vera mjög afmennskandi ferli.
„Maður er keflaður í hann,“ segir hún og hvetur blaðamann til þess að gúgla stólinn til þess að „sjá hvernig farið er með fólk“.
„Ég hef oftar en ekki slasast við þessa meðferð, mér er ýmist dúndrað í sætin eða þau missa mig,“ segir Inga og bætir við að hún skilji vel að upp komi einstaka atvik, en svona sé meðferðin alltaf.
Inga hefur ferðast oft og víða og segir öryggi sitt hvergi tryggt af flugvallarstarfsfólki, „sama hvar ég er, hvort sem það er á Leifsstöð eða annars staðar“.
Hún ákvað því að leita leiða til að tryggja betur öryggi sitt og fjárfesti í eigin búnaði, svokölluðu burðarsegli. En á myndinni má sjá Ingu í burðarseglinu sínu, auk þess sem hún situr í fyrrnefndum gangastól.
Aðspurð segir hún hvergi boðið upp á burðarsegl á flugvöllum. Það sé þó ekki við flugvallarstarfsfólk að sakast.
„Það er að reyna að gera sitt besta í ömurlegum aðstæðum,“ segir hún en bætir við að flugvélar séu bara svo rosalega þröngar. „Það er ekkert gert ráð fyrir okkur.“
Í því samhengi tekur hún fram að hún neyti ekki nokkurs vökva á ferðadegi enda ekki í boði fyrir hana að nota salerni á flugi.
Sjálf myndi Inga kjósa að fá að sitja í eigin hjólastól í flugi.
„Þetta er græðgi flugfélaganna,“ segir hún, það er vel hægt að festa stólana í gólfið á flugvélunum eins og gert er í bílum, enda hjólastólarnir festir í gólfið á bílum með samskonar hætti og flugvélasæti eru fest í flugvélar. „En þeir þyrftu þá líklega að fórna eitthvað um fjórum sætum til þess að koma stólnum fyrir,“ bætir hún við.
Þess í stað eru hjólastólarnir teknir og settir í farangursgeymslu og „við erum borin um borð eins og farangur“, segir Inga.
Það er ekki einungis meðferðin sem fötluðu fólki er boðið upp á, sem er því til trafala á ferðalögum. Þegar hún ætlaði að innrita sig í flugið, á ferðadegi með vinkonum sínum, var henni bannað að innrita sig og henni sagt að rafhlaðan í hjólastólnum hennar væri ekki leyfð.
Hún er þó með vottorð frá framleiðanda sem segir að það sé algjörlega öruggt að ferðast með rafhlöðuna og hefur jafnframt ferðast ótal sinnum í þessum sama hjólastól. Þá segir hún fólk ferðast um í sams konar hjólastólum daglega, heimshorna á milli.
Inga rétt slapp þó í gegnum innritunina, en þá var hún næstum búin að missa af fluginu sínu. „Það er ekkert við Play að sakast eða flugvöllinn, eða ekkert sérstaklega, þetta gerist í hvert einasta skipti sem ég fer í flug,“ segir Inga.
Þar af leiðandi mætir hún ávallt á flugvöllinn þremur tímum fyrir flug, enda tekur að jafnaði um einn og hálfan til tvo tíma fyrir hana að innrita sig og síðan er henni dröslað inn í flugvélina um klukkutíma áður en flugvélin tekur af stað.
„Það er alveg galið að maður geti ekki farið að heimsækja ættingja og vini erlendis, eða farið með fjölskyldunni í frí með mannsæmandi hætti," segir Inga sem þó er á leið í aðra flugferð eftir þrjá daga til þess að heimsækja systur sína sem býr erlendis.
Inga segir það fyrstu utanlandsferð hennar með fjögurra ára syni sínum, því hingað til hafi hún ekki geta hugsað sér að hann verði vitni að þessari meðferð á móður sinni.
Þá hafnar hún undantekningarlaust boðum sem hún fær, vinnu sinnar vegna, um að ferðast erlendis til þess að taka þátt í ráðstefnum, flytja fyrirlestra eða veita þar ráðgjöf.
Inga segir ferðalög meiriháttarátak. „Þetta er svo kerfisbundið, þetta hugsunarleysi um að fatlað fólk sé til og vilji lifa lífinu.“
Undirbúningurinn tekur marga daga, enda vill Inga gulltryggja að allt sé í lagi, að það sé tekið tillit til þarfa hennar og að hún fái þá aðstoð sem hún á rétt á.
Þrátt fyrir það segist hún alltaf lenda í rifrildum við starfsmenn um stólinn, aðstoðina sem hún þarf eða hvort hjálpartækin séu nógu örugg, sem notuð eru til þess að koma fólki um borð.
„Það er alltaf eins og þetta hafi aldrei gerst áður, sama hversu oft ég ferðast.“