„Helgin byrjar svolítið blaut svona framan af. Það virðist ætla vera hæglætisveður það sem eftir er helgarinnar en gæti verið einhver væta á víð og dreif. Föstudagurinn er kannski í blautara lagi fyrir þá sem ætla að gista í tjaldi.“
Þetta segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is um veðrið yfir verslunarmannahelgina.
Þorsteinn segir að hann geti í raun aðeins sagt til um hvernig veðrið verði fyrir föstudag og laugardag. Hann bendir á að svo virðist sem að lægð komi upp á föstudaginn.
„Ekkert mjög djúp lægð en það getur rignt svolítið á föstudeginum og fram eftir laugardeginum. Vindar virðast vera hægir og bara ágætis veður þannig lagað séð.“ Hann segir að það muni rigna mest við Breiðafjörð.
Það mun rigna víða á laugardeginum á Suðurlandi og Vesturlandi en verður að mestu þurrt á norðaustanverðu landinu.
Hann tekur fram að besta veðrið yfir verslunarmannahelgina verði að öllum líkindum á Norðausturlandi og Austurlandi.
Þá fer hitinn á landinu hæst upp í fimmtán stig á föstudaginn og laugardaginn. „Hiti verður á bilinu átta til fimmtán gráður. Átta gráður kannski vestast á landinu,“ segir Þorsteinn.
Þorsteinn segir helgina líta vel út eftir föstudaginn sem er versti dagurinn fyrir þá sem ætla sér að dvelja í tjaldi.
„Við erum ekki enn þá búin að gefa út spá fyrir hina tvo dagana en það verður hæglætisveður virðist vera. Kannski ekki mikil sól og smá væta á víð og dreif.“