Unnu bug á gróðureldunum: „Engin mengun“

Slökkviliðið vann bug á gróðureldunum í gær.
Slökkviliðið vann bug á gróðureldunum í gær. mbl.is/Eyþór Árnason

Slökkviliðsmenn náðu að ráða niðurlögum gróðurelda á gosstöðvunum við Litla-Hrút seint í gærkvöldi. Þetta staðfestir Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, í samtali við mbl.is.

Slökkvistarfi er þó ekki lokið á svæðinu og tekur Einar fram að slökkviliðið muni enn hafa viðveru á svæðinu til að koma í veg fyrir að gróðureldur komi upp aftur út frá nýjum glæðum.

„Við náðum að slökkva í gróðureldunum seint í gærkvöldi. Við vorum með vakt í nótt þar sem menn fóru línuna. Þá var að kvikna smá glóð hér og þar, sem við náðum að halda niðri. Við keyrum vaktir allan sólarhringinn næstu daga til þess að grípa inn í ef eitthvað kemur upp.“

Anda léttar

Einar segir það virkilega ánægjulegt að hafa náð að slökkva í gróðureldunum og tekur því fagnandi að vera laus við reykinn sem hefur verið viðvarandi á svæðinu.

„Núna er eiginlega engin mengun frá þessu og við erum að anda aðeins léttar,“ segir hann í orðsins fyllstu merkingu.

Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík.
Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík. mbl.is/Eyþór

Hann tekur fram að það sé mun auðveldara að koma í veg fyrir að gróðureldar komi upp aftur í stað þess að berjast endalaust gegn þeim.

Fimm manna gengi mun standa vaktina

Spurður hvort að það verði þá færri menn á vakt á gosstöðvunum segir Einar: 

„Ekki í dag. Við erum að keyra vatnið upp á svæðið og búa til þessar vatnsbirgðir uppi og svo drögum við niður mönnunina á morgun. Þá verðum við bara með fimm manna gengi sem keyrir meðfram og hefur eftirlit með að það leynist hvergi glóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert