„Ef það dregur úr framleiðni í gosinu, eins og er búið að gera síðustu viku, og það heldur áfram með sama hraða þá erum við að tala um kannski eina eða tvær vikur.“
Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur, spurður hvort goslok við Litla-Hrút séu væntanleg.
Eins og greint var frá í gær hefur dregið úr afli gossins um 30 til 50 prósent í síðustu viku og er hraunflæðið upp í gegnum gíginn um fimm til sex rúmmetrar á sekúndu.
„Ef framleiðnin heldur áfram að falla með sama hraða, þá eru goslok ekki langt undan – ein til tvær vikur?“ sagði í tilkynningu frá rannsóknarstofu Háskóla Íslands í eldfjallafræði og náttúruvá.
Þorvaldur bendir á að ef hraunflæðið lækki niður í þrjá rúmmetra á sekúndu þýði það goslok við Litla-Hrút. Ef aflið í eldgosinu fer niður fyrir þrjá rúmmetra á sekúndu hefur yfirþrýstingurinn ekki afl til að ýta kvikunni upp og viðhalda flæði frá gosinu.
„Ef maður horfir á fræðilegu hliðina þá er lágmarksframleiðni til að halda gosopi um þrír rúmmetrar á sekúndu. Ef það dettur niður fyrir þrjá þá eru mjög miklar líkur á að gosið nái ekki halda dampi og að það lokist fyrir gosrásina.“
Hann tekur þó fram að ef eldgosið heldur núverandi hraunflæði þá geti það haldið áfram í nokkrar vikur eða jafnvel mánuði.
„Ef það hægir á fallinu í framleiðninni þá getur þetta haldið út í nokkrar vikur eða mánuði. Þetta fellur í veldisfalli og þú veist hvernig veldisföll eru þá er fallið mikið fyrst og síðan hægir alltaf meira og meira á. Eftir því sem lengra dregur þá hægir á fallinu,“ segir hann.
Þorvaldur ítrekar þó að ómögulegt sé að spá fyrir vissu hvenær goslok verða og bendir á að utanaðkomandi atburðir geti haft áhrif á það.
„Það geta þó aðrir utanaðkomandi atburðir haft áhrif eins og stór skjálfti. Skjálfti gæti virkað í báðar áttir. Hann gæti opnað gosrásina enn frekar og gert auðveldara fyrir kvikuna að koma upp. Skjálfti gæti líka lokað fyrir gosrásina. Ef einhver svoleiðis atburður gerist höfum við ekki hugmynd um hvernig fer.“
Þorvaldur bendir á að núverandi eldgos við Litla-Hrút sé orðið næststærsta gosið á Reykjanesskaganum á síðustu árum. Hraunbreiðan frá núverandi gosi er orðin fimmtán milljón rúmmetrar að stærð en stærð hraunbreiðunnar frá eldgosinu við Meradali á síðasta ári er ellefu milljón rúmmetrar að stærð.
Eldgosið við Fagradalsfjall árið 2021 mældist hundrað milljón rúmmetrar að stærð.
„Mér þykir það ólíklegt en maður getur ekki útilokað neitt. Mér finnst líklegra að þetta hægi nú á sér rólega og slokkni,“ segir hann spurður hvort það séu einhverjar líkur á að núverandi gos nái eldgosinu við Fagradalsfjall að stærð.