Þriðji þátturinn af hlaðvarpinu Lömbin þagna ekki kom út í dag og ber nafnið Baráttan um túnin. Í þættinum fer Ása Skúladóttir ásamt systrum sínum tveimur yfir helstu skemmdarverk sem þær segja að hafi verið gerð á Lambeyrum í Dölum.
Daði Einarsson, faðir Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, og bróðir hans Valdimar Einarsson eru sakaðir um að hafa staðið í stöðugum skemmdarverkum og þá sérstaklega á túnum Lambeyra.
Systurnar deildu myndum og myndskeiðum af skemmdarverkunum á Youtube.
Eins og áður hefur verið greint frá snýst málið um hatrammar ættardeilur vegna jarðarinnar Lambeyrar sem hafa staðið yfir frá árinu 2007 þegar afi systranna lést. Jörðin erfðist þá jafnt á milli átta systkina.
Faðir systranna, Skúli Einarsson, keypti jörðina ásamt öðrum árið 2017 á uppboði eftir að faðir Ásmundar Einars Daðasonar, Daði Einarsson, hafði keyrt rekstur jarðarinnar í þrot að sögn systranna.
Í kjölfarið hafi verið framin síendurtekin skemmdarverk á jörðinni og hefur Ásmundur Einar meðal annars verið sakaður um innbrot.
„Stærsta skemmdarverkið var í raun þegar vatnsveitan var eyðilögð og nú erum við að kæra það en þá neitaði lögreglan að koma. Síðan í skjóli nætur var einhvern tímann farið með plóg á tún og jörðin rifin upp svo það eru yfir tuttugu hektarar af landinu sem eru ónothæfir,“ sagði Ása í samtali við mbl.is 19. júní en hér fyrir neðan má sjá myndskeið af skemmdarverkum á vatnsveitunni.
Ása segir að faðir hennar, Skúli Einarsson, hafi ítrekað hringt í lögregluna sem hafi neitað að koma. Greip hann þá til þess ráðs að standa ofan í skurðinum sem bræður hans höfðu grafið. Létu þeir þá svívirðingum rigna yfir Skúla samkvæmt því sem fram kemur í myndskeiðinu.
Hægt er hlusta á þriðja þáttinn hér. Í þættinum fara systurnar yfir skemmdarverkin og rekja hvernig skemmdarverkin byrjuðu árið 2017.
Í þættinum telja þær fjölmörg skemmdarverk þar sem hefur verið keyrt yfir tún, klippt á girðingar og tún slegið í leyfisleysi.
Þá er einnig farið yfir það þegar vatnsveita á jörðinni var eyðilögð með hjálp gröfu.
„Þeir Daði og Valdimar koma með stóra gröfu sem við vitum ekki hvort þeir hafi réttindi á. Númerinu á gröfunni var flett upp og þá kom í ljós að hún var í eigu Arionbanka og skráð á Þverholt ehf., sem er eitt af mörgum félögum Daða sem hefur farið á hausinn. Þá byrja þeir að grafa upp túnin og markmiðið var að slíta upp vatnsveitu.
Stoppa vatnið þannig að það færi ekkert vatn á Nýju Lambeyrar, þetta var fyrsta helgin sem leigjendur voru í húsinu það sumar. Það er fátt sem þeir þola verr en þegar húsið er í leigu. Þeir finna ekki hvar leiðslan er og byrja að grafa á fullu. Faðir systranna heyrir af þessu, kemur og fer ofan í skurðinn. Faðirinn er djúpum skurðinum. Daði er á gröfunni og Valdimar til hliðar. Þeir töluðu mikið niður til pabba. Fólk sem sá myndskeiðið varð reitt,“ segir í tilkynningu systranna.