Fallist á vanhæfiskröfu Björgólfs Thors

Björgólfur Thor Björgólfsson. Mynd úr safni.
Björgólfur Thor Björgólfsson. Mynd úr safni. Ljósmynd/Vefur BTB

Landsréttur féllst á kröfu Björgólfs Thors Björgólfssonar um vanhæfi Jóns Arnars Baldurs endurskoðanda og honum gert að víkja sæti sem sérfróður meðdómsmaður í hópmálsókn hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi. Jón Arnar var metinn vanhæfur vegna tengsla hans við endurskoðunarfyrirtækið Pricewaterhouse Coopers (PwC). 

Jón Arnar átti að sitja sem sérfróður meðdómsmaður í hópmálsókn þriggja málsóknarfélaga hluthafa Landsbanka Íslands gegn Björgólfi. Málið átti upphaflega að hefjast fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í apríl en tafðist vegna kröfu Björgólfs um vanhæfi Jóns Arnars.

Í úrskurði Landsréttar sem féll þann 28. júní kemur fram að Björgólfur hafi kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar eftir að héraðsdómur leit svo á að Jón Arnar væri ekki vanhæfur. Snéri Landsréttur því við niðurstöðu héraðsdóms sem taldi Jón Arnar ekki hafa hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. 

Krafa Björgólfs er byggð á því að Jón Arnar aðstoðaði PwC árið 2015 í tilteknum atriðum í málsvörn félagsins í máli sem slitastjórn Landsbanka Íslands höfðaði á hendur því. Jón Arnar hafði einnig borið ábyrgð á eftirliti ársreikningaskrár Landsbanka Íslands á árunum 2005 til 2007.

Ekki hægt að útiloka að Jón hafi þegar myndað sér skoðun

Landsréttur leit til þess í niðurstöðu sinni að upplýst væri að Jón Arnar hafi veitt PwC aðstoð og ráðgjöf við málsvörn félagsins í máli slitastjórnar Landsbanka Íslands gegn félaginu. PwC var endurskoðandi bankans og áritaði reikninga hans fyrir fall bankans í október 2008. Málatilbúnaður hluthafa Landsbankans gegn Björgólfi beinist einmitt að ársreikningum Landsbankans á þeim tíma.

„Þá reyndi í áðurgreindu máli á svipaðar málsástæður um ætlaða annmarka á ársreikningi bankans og þær sem varnaraðili teflir fram í máli sínu gegn sóknaraðila.

Ekki er hægt að útiloka að hinn sérfróði meðdómsmaður hafi við þá aðstoð og ráðgjöf sem hann veitti samkvæmt framangreindu þegar myndað sér skoðun á reikningsskilum bankans,“ segir í niðurstöðukafla Landsréttar.

Út frá því taldi Landsréttur að draga mætti í réttu í efa óhlutdrægni Jóns Arnars við úrlausn málsins. Var hann því talinn vanhæfur til að fara með og dæma í málinu og honum gert að víkja sæti í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert