Í tjaldi með barn vegna fasteignagalla

Tjaldið sem Sæmundur, Ester og níu ára sonur þeirra hafa …
Tjaldið sem Sæmundur, Ester og níu ára sonur þeirra hafa búið í um þriggja vikna skeið við hlið einbýlishúss síns á Völlunum sem er óíbúðarhæft vegna fjölda galla. Ljósmynd/Aðsend

„Við kaupum þetta hús 2008 og vorum plötuð illa. Hvergi kom fram að húsið væri ekki tilbúið, við vorum að kaupa fulltilbúið hús, það sögðu öll gögn, söluyfirlit og kaupsamningur, það kom hvergi fram að húsið væri á fokheldisstigi,“ segir Sæmundur Jóhannsson sem keypti hús á Völlunum í Hafnarfirði árið 2008 en býr nú ásamt konu sinni og níu ára gömlu barni í tjaldi utan við húsið sem er óíbúðarhæft vegna myglu, raka, leka og fleiri galla.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gerði úttekt á ástandi hússins og sendi byggingarfulltrúanum í Hafnarfirði erindi 2. mars þar sem fram kemur að brotið hafi verið gegn þágildandi byggingarreglugerð frá 1998 þar sem tryggingafyrirtækið Sjóvá-Almennar hafði afturkallað starfsábyrgðartryggingu byggingarstjóra hússins snemma árs árið 2005.

Ritar HMS meðal annars: „Samkvæmt innsendum gögnum frá eiganda mannvirkisins komu upp alvarleg lekavandamál í því sem hann telur að megi rekja til rangra vinnubragða við einangrun hússins og vanrækslu byggingarstjóra á skyldum sem á honum hvíla lögum samkvæmt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tók kvörtun þessa til skoðunar í samræmi við 18. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og kallaði í tengslum við það eftir gögnum frá byggingarfulltrúa vegna málsins.“

Eigandi geti ellegar ekki gætt hagsmuna

Síðar í úrskurði HMS kemur fram að byggingarstjóra sé skylt að segja sig af verki þegar í stað hafi hann ekki fullnægjandi tryggingu sbr. téða reglugerð. Af því leiði að annaðhvort verði viðkomandi byggingarstjóri að útvega nýja starfsábyrgðartryggingu eða nýr byggingarstjóri að taka við verkinu.

Hafi hvorugt átt sér stað sé byggingarfulltrúa skylt að stöðva framkvæmdir uns nýr byggingarstjóri hafi verið ráðinn. „Hins vegar er ljóst af gögnum málsins að hvorki fóru fram byggingarstjóraskipti né voru framkvæmdir stöðvaðar í kjölfar tilkynningar umhverfisráðuneytisins um afturköllun starfsábyrgðartryggingar byggingarstjórans. Í því samhengi verður ekki hjá því komist að benda á hversu mikilvægt er að byggingarfulltrúi tryggi að slíkum upplýsingum sé komið á framfæri,“ segir HMS.

Svona er ástandið innandyra eins og er. „En þetta er …
Svona er ástandið innandyra eins og er. „En þetta er bara Hilton miðað við hvernig það var,“ segir Sæmundur Jóhannsson. Ljósmynd/Aðsend

Að öðrum kosti geti eigandi mannvirkis ekki gætt þeirra hagsmuna sinna sem séu samfara því að byggingarstjóri sé með gilda starfsábyrgðartryggingu.

Sæmundur segir farir sínar ekki sléttar og telur þau kaupendurna, sig og Ester Erlingsdóttur, hafa tapað á bilinu 50 til 55 milljónum vegna galla á fasteigninni auk þess sem þeim hafi verið selt hús á fokheldisstigi sem samkvæmt öllum gögnum málsins hafi átt að vera fullbúið hús.

Í engu getið um galla á fasteigninni

Í máli sem Sæmundur og Ester höfðuðu fyrir Héraðsdómi Reykjaness voru seljendur hússins, ásamt byggingarstjóranum, dæmdir til að greiða stefnendum óskipt 510.645 krónur vegna rakasperru sem sett var vitlaust upp en kveður Sæmundur þann galla aðeins dropa í hafið miðað við ástand hússins sem byggt er upp úr aldamótum.

Segir í dómi héraðsdóms að í söluyfirliti hafi eigninni verið lýst sem nýlegri og fallegri og í framhaldi farið nánar yfir innviði hússins. „Þar hafi í engu verið getið um galla á fasteigninni og heldur ekki um að lokaúttekt hefði ekki verið gerð á húsinu og að það væri í raun aðeins á fokheldisstigi en ekki fullbyggt.

Í mars 2011 hafi komið upp mikil lekavandamál í eigninni, bæði innan- og utanhúss, og ennfremur hafi stefnendum orðið ljóst að aðrir annmarkar væru á eigninni. Stefnendur hafi þá farið á stúfana, m.a. hjá byggingarfulltrúa, og komist m.a. að því sem að framan greinir, þ.e. að ekki hefði verið gerð lokaúttekt á húsinu, og að húsið hefði í raun aðeins verið á fokheldisstigi þegar það var selt stefnendum.“

Segir Sæmundur fasteignasalann í Hafnarfirði hafa svikið þau Ester en rætt verður við fasteignasalann í öðru viðtali sem væntanlegt er hér á mbl.is.

Kötturinn í sekknum

„Hann var að gera vini sínum greiða og seldi okkur köttinn í sekknum. Þau [seljendurnir] áttu heima í húsinu áður, það var allt tilbúið, ísskápur var til staðar, við fengum bara ísskápinn þeirra, þau voru búin að búa þarna í tvö ár. Við löbbum bara inn í húsið, engar athugasemdir, kaupum bara notað hús á Völlunum. Það var ekkert sem sagði okkur að húsið væri ekki fulltilbúið, við vorum að kaupa fulltilbúið hús,“ rifjar Sæmundur upp.

En hvernig mátti það vera að þið sáuð ekki við skoðun á staðnum að húsið var ekki tilbúið?

„Það er ekki hægt, við erum bara að tala um pappírslega séð,“ útskýrir Sæmundur, „parketið var til staðar, þetta er bara venjulegt hús, þú bara flytur inn og ferð að búa þar. Þessi fasteignasali selur okkur þetta hús fyrir hærra verð en við hefðum nokkurn tímann borgað fyrir það, hann var að gera vini sínum greiða sem fólst í því að halda frá okkur þeim gögnum að húsið væri á fokheldisstigi,“ heldur hann áfram.

Þau Ester hafi aldrei ætlað sér að kaupa fokhelt hús en ekkert hafi verið minnst á það í sölugögnum. „Ég komst að því á þessu ári að hann var að gera vini sínum greiða, hann fékk söluna í gegn hratt og örugglega og fékk hærra verð fyrir húsið, við sitjum svo uppi með hús sem er á fokheldisstigi.“

Enginn svo vitlaus

Að þessu hafi Sæmundur og Ester hins vegar ekki komist fyrr en árið 2012. „Þá förum við að garfa í málinu og tala við hina og þessa. Við komumst að þessu þegar fyrsti gallinn kom í ljós, þakkantur sem lak. Við unnum dómsmál gagnvart seljanda árið 2013 vegna þess að fúskið var svo mikið í þessu húsi,“ segir Sæmundur og bætir því við að fasteignasalinn hafi þá komið fyrir héraðsdóm.

„Hann segir þar að hann teldi að hann hefði selt okkur fullbúið hús, gögnin og það sem hann segir er alveg á skjön. Hann sagði að hann hefði selt okkur fullbúið hús en eigandinn sagði að hann hefði selt okkur fokhelt hús. Ef við hefðum keypt fokhelt hús hefðum við beðið um útlistun á því hvað ætti eftir að taka út og gera, enginn er svo vitlaus að kaupa fokhelt hús án þess að kanna það,“ heldur hann áfram.

Sæmundur og Ester ásamt níu ára syni sínum. Þau keyptu …
Sæmundur og Ester ásamt níu ára syni sínum. Þau keyptu köttinn í sekknum segir Sæmundur, þegar þau greiddu 54 milljónir fyrir einbýlishús sem þau töldu fullbúið en reyndist aðeins á fokheldisstigi. Ljósmynd/Aðsend

Í kjölfarið hafi Sæmundur sent Hafnarfjarðarbæ fjölda tölvupósta og bent á að eitthvað alvarlegt væri að, enginn byggingarstjóri væri á húsinu og ekki búið að gera lokaúttekt á því. Þetta eigi ekki að vera hægt. „Þetta er eins og ég myndi keyra í tíu ár próflaus og löggan vissi af því en gerði ekki neitt,“ segir Sæmundur og heldur áfram yfir í fleiri galla á fasteigninni.

Múrarameistarinn aldrei komið inn

„Svo komumst við að því að það er mygla í öllum veggjum hússins og múrarameistari hússins hefur aldrei komið inn í það. Við erum því með tjón upp á 50 milljónir og Hafnarfjarðarbær neitar allri ábyrgð,“ segir Sæmundur sem fékk tilboð frá Hafnarfirði um niðurfellingu fasteignagjalda og greiðslu fyrir útlagðan kostnað, samtals 1.351.489 kr.

Þessu tilboði höfnuðu þau kaupendurnir á þeirri forsendu að það væri fáránlegt, aðeins brot af heildartjóni þeirra. Hafði mbl.is samband við Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra í Hafnarfirði, og grennslaðist fyrir um málið sem skilaði sér í svohljóðandi svari frá Sigurjóni Ólafssyni, sviðsstjóra þjónustu- og þróunarsviðs, sem sendi mbl.is tölvupóst:

„Hafnarfjarðarbær fellst ekki á kröfu eigenda [hússins] um að sveitarfélagið bæti tjón vegna galla á fasteign þeirra og vísar í því sambandi til lögbundinnar ábyrgðar eiganda fasteignar á byggingarframkvæmdum og ábyrgðar byggingarstjóra. Dómstólar hafa þegar fallist á bótaábyrgð fyrrum eiganda fasteignarinnar og skilst sveitarfélaginu að fyrirhugað sé að höfða nýtt mál gegn sömu aðilum á grundvelli þess. Þá er óljóst hvort þær framkvæmdir sem taldar væru haldnar göllum hafi farið fram eftir að ábyrgðartrygging byggingarstjóra féll úr gildi árið 2005. Þótt vandséð sé að skilyrði bótaábyrgðar sveitarfélagsins séu fyrir hendi hefur Hafnarfjarðarbær reynt að koma til móts við erfiða stöðu eigenda með úrræðum til þess að lágmarka tjón að meðan á viðgerð á fasteigninni stendur.“

Beðið um félagslega hjálp

Sæmundur heldur áfram og er þakklátur fyrir mat HMS sem vitnað er í hér að ofan. „HMS er að flengja Hafnarfjarðarbæ fyrir vanrækslu. Ef þú kaupir hús treystirðu því að bæjarfélagið hafi staðið við sitt. Maður er að borga fasteignagjöld fyrir ýmsa þjónustu, til dæmis sorphirðu, en líka byggingareftirlit. Maður treystir sínu bæjarfélagi fyrir því að allt sé í lagi. Hafnarfjarðarbær vissi að það var ekki byggingarstjóri á húsinu, þeir fengu bréf um það, en þeir stöðvuðu aldrei framkvæmdir,“ segir Sæmundur.

„Hefði bærinn stöðvað framkvæmdirnar væri ég aldrei með 50 milljóna …
„Hefði bærinn stöðvað framkvæmdirnar væri ég aldrei með 50 milljóna króna tjón. Þarna hefði bærinn átt að segja stopp, þetta á ekki að vera hægt.“ Ljósmynd/Aðsend

„Hefði bærinn stöðvað framkvæmdirnar væri ég aldrei með 50 milljóna króna tjón. Þarna hefði bærinn átt að segja stopp, þetta á ekki að vera hægt,“ heldur hann áfram.

En hver eru þá ykkar næstu skref í málinu og hvar búið þið núna?

„Við búum í tjaldi fyrir utan húsið. Nú er búið að losa alla myglu og pússa alla veggi, ég er búinn að biðja Hafnarfjarðarbæ um félagslega hjálp, íbúð eða eitthvað, ég er búinn að senda marga tölvupósta og segja þeim að við séum í slæmum málum og engu er svarað. Það er verið að hjálpa fólki frá öllum heiminum, ég er ekki að tala um Úkraínu núna, en það er verið að hjálpa fólki frá Venesúela og Albaníu og fleiri löndum. Í okkar máli er hins vegar bara verið að skoða þetta og það er búið að vera að skoða þetta í fimm mánuði,“ segir Sæmundur af kjörum þeirra fjölskyldunnar sem býr í tjaldi við hlið einbýlishúss síns.

Svar um gjafsókn í ágúst

Í dómsforsendum Héraðsdóms Reykjaness kemur þó fram að dómurinn telji í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að fasteignin hafi verið seld þótt lokaúttekt hafi farið fram. „Enda mátti ráða það af fylgiskjölum með kaupsamningi eins og áður greinir að eignin hafi verið skráð á fokheldisstigi við kaupin þrátt fyrir að hún væri að mestu fullgerð. Í ljósi þess og framkvæmda sem gerðar höfðu verið á fasteigninni sem ekki voru í samræmi við teikningar og þörfnuðust því samþykktar byggingaryfirvalda er það álit dómsins að stefnendum málsins hafi verið ljóst að endanleg úttekt hefði ekki farið fram á fasteigninni,“ segir þar.

Sæmundur fellst ekki á að þeim kaupendunum hafi verið þetta ljóst og er með annað dómsmál í uppsiglingu þar sem gert er ráð fyrir aðalmeðferð í haust. „Við getum ekki selt þetta hús, þannig er það bara. Ég er í málaferlum við fyrrverandi eiganda hússins og er búinn að biðja lögfræðinginn minn að fara í gjafsókn gagnvart Hafnarfjarðarbæ, við höfum ekki fjármagn í að laga húsið og vera í tveimur lögfræðimálum, ég fæ svar um það í ágúst en er núna búinn að bíða í 80 daga,“ segir Sæmundur Jóhannsson vongóður, fasteignaeigandi sem telur sig hafa keypt köttinn í sekknum og býr í tjaldi á Völlunum ásamt konu og níu ára syni.

Fasteignasalinn sem hafði milligöngu um sölu hússins verður í viðtali hér á mbl.is á morgun, þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert