„Ótrúlega mikill innblástur“

Gleðin leyndi sér ekki þegar flautað var til leiksloka.
Gleðin leyndi sér ekki þegar flautað var til leiksloka. Ljósmynd/Jón Margeir Þórisson

Lið malavísku knattspyrnuakademíunnar Ascent Soccer varð Rey Cup-meistari í þriðja flokki karla í gær eftir hörkusigur á sterku liði Þróttar. Drengirnir gerðu sér lítið fyrir og unnu alla sex leiki sína á mótinu, skoruðu 21 mark og fengu ekkert mark á sig.

„Tilfinningin sem fylgdi því að vinna mótið var frábær,“ segir Marc Schwenk, þjálfari Ascent Soccer.

Flugu þvert yfir hnöttinn

„Það sem var skemmtilegast var að sjá strákana svona spennta eftir að hafa komið alla leið hingað frá Malaví til þess að fá tækifæri til að keppa á móti jafnöldrum sínum. Sigurinn gerir þetta ennþá sætara og gaman að þeir geti tekið hann með sér heim.“

Ascent Soccer unnu 1-0 sigur á Þrótti í 3. flokki …
Ascent Soccer unnu 1-0 sigur á Þrótti í 3. flokki karla á Rey Cup í gær. Ljósmynd/Jón Margeir Þórisson

Þátt­taka liðsins á mót­inu ásamt ferðinni til Íslands var styrkt af ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um auk þess sem fjár­öfl­un var hald­in til þess að fljúga liðinu til lands­ins.

Marg­ir drengj­anna ólust upp við mikla fá­tækt og hafði eng­inn þeirra ferðast út fyr­ir Afr­íku áður en þeir héldu af stað á Rey Cup. Í hópnum er einnig að finna tvo unga drengi sem æfðu með meistaraflokki karla Víkings á dögunum.  

Æsispennandi úrslitaleikur

„Ég held að þeir hafi náð að njóta stemningarinnar í kringum úrslitaleikinn,“ segir Schwenk, spurður hvort spennustigið í klefanum hafi verið hátt áður en drengirnir gengu inn á Laugardalsvöll til þess að mæta Þrótti í úrslitum. 

Úrslit leiksins voru 1-0 Ascent Soccer í vil, en mark Ascent skoraði fyrirliði liðsins, Mwisho Mhango úr aukaspyrnu.

„Eftir að þeir skoruðu urðu þeir aðeins meira stressaðir og fylgdu planinu okkar ekki alveg jafn vel,“ segir Schwenk léttur í bragði. 

Láti knattspyrnudraumanna verða að veruleika

„Þetta er gífurleg hvatning fyrir strákana. Tilfinningin sem fylgir því að vinna svona mót er eitthvað sem mann langar að elta og upplifa aftur,“ segir Schwenk sem vonast til þess að drengirnir haldi áfram að æfa af krafti og eigi möguleika á því að láta knattspyrnudrauma sína verða að veruleika í framtíðinni. 

„Svo er þetta auðvitað ótrúlega mikill innblástur fyrir yngri krakka heima fyrir, sem sjá að þetta er hægt.“

Fyrirliði Ascent Soccer, Mwisho Mhango, skoraði úrslitamark leiksins og fagnaði …
Fyrirliði Ascent Soccer, Mwisho Mhango, skoraði úrslitamark leiksins og fagnaði því með viðeigandi hætti. Ljósmynd/Jón Margeir Þórisson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert