„Borgarbúar munu vakna upp við vondan draum“

Helga Kristín Gunnarsdóttir er talsmaður samtakanna Vinir Vatnsendahvarfs.
Helga Kristín Gunnarsdóttir er talsmaður samtakanna Vinir Vatnsendahvarfs. Samsett mynd

Helga Kristín Gunnarsdóttir, talsmaður Vina Vatnsendahvarfs, segir borgarbúa munu vakna upp við vondan draum, fari áætluð framkvæmd Vegagerðarinnar fram, líkt og allt stefnir í.

Framkvæmdin sem um ræðir er þriðji áfangi Arnarnesvegar, milli Rjúpnavegar og Breiðholtsbrautar. Verður lagður algerlega nýr vegur á um 1,9 kílómetra kafla.

Að auki verða byggð brúarmannvirki og undirgöng. Að sögn Vegagerðarinnar eiga framkvæmdir að hefjast um miðjan mánuðinn.

Byggist á tuttugu ára gömlu umhverfismati

Helga Kristín gerir miklar athugasemdir við það að framkvæmdin öll byggi á tuttugu ára gömlu umhverfismati.

„Við höfum verið að kalla eftir nýju umhverfismati í fimm ár. Allan þann tíma hefur verið sagt við okkur að það væri ekki hægt því það muni tefja framkvæmdir um heilt ár og muni kosta allt of mikinn pening,“ segir hún.

„Það sem okkur grunar er að þeir vilji ekki fara í annað umhverfismat, því svörin sem þeir fá út úr því muni kosta miklu stærri mótvægisaðgerðir.“

Ekki á móti veglagningu

Hún segir engan hafa lagst gegn veglagningunni sjálfri, heldur hvernig að henni var staðið og hvernig ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda.

„Við báðum um að skoðað yrði að leggja veginn í stokk, þá var sagt að það væri allt of dýrt, án þess að færa nein frekari rök fyrir því. Það var því í raun aldrei skoðað hversu dýrt það yrði.“

Hún nefnir sem dæmi að ákveðið hafi verið að breyta gatnamótum á vegnum úr mislægum í t-gatnamót, svipuðum þeim og eru á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar, sem talin eru ein hættulegustu gatnamót á höfuðborgarsvæðinu.

„Það á sem sagt að eyða 6,5 milljörðum í framkvæmd sem stífla mun Breiðholtsbraut enn frekar, sem þegar er mjög stífluð.“

Svartsýn en vonast eftir kraftaverki

Vinir Vatnsendahvarfs hugsa sérstaklega til þess rasks sem verður á náttúru þar, sem er varpstaður farfugla og þekktur útivistar- og útsýnisstaður í bæjarlandinu.

„Ég skil ekki að fólk hafi ekki haft betri framtíðarsýn fyrir þetta svæði. Það ætti að hugsa um það sem framlengingu á Elliðaárdalnum. Það sem Vegagerðin sagði á sínum tíma, að það væri óheppilegt hvað þetta er orðið grænt svæði, því það væri óheppilegt fyrir þá.“

Samtökin hafa sent inn kvörtun til umboðsmanns Alþingis. Helga Kristín segist þó vera svartsýn og tíminn sé ekki með þeim í liði.

Síðustu forvöð

„Ef athugasemdir berast frá umboðsmanni þá er það líklegast of seint, þá verða þeir byrjaðir að grafa og keyra jarðýtunum alveg í gegn, þannig að þetta verði óafturkræft. Vegagerðin er þekkt fyrir svoleiðis vinnubrögð.“

Hún hvetur borgarbúa til að heimsækja svæðið næstu tvær vikurnar og njóta þeirra gæða sem senn hverfa undir jarðýtur. Nú séu síðustu forvöð. „Ég vonast samt ennþá eftir einhverju kraftaverki,“ segir Helga Kristín að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert