Ekki mótfallnir að skoða aðrar staðsetningar

Þyrlur Norðurflugs fljúga reglulega með ferðamenn í átt að eldgosinu …
Þyrlur Norðurflugs fljúga reglulega með ferðamenn í átt að eldgosinu við Litla-Hrút. mbl.is/Árni Sæberg

Birgir Haraldsson, framkvæmdastjóri Norðurflugs, segist þykja það leitt að hávaðamengunin sem fylgi auknu þyrluflugi vegna eldgossins hafi truflandi áhrif á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Hann segir Norðurflug tilbúið að skoða alla þá kosti sem standi til boða til þess að koma til móts við kvartanir íbúa. 

Sýna íbúum höfuðborgarsvæðisins skilning

„Við skiljum alveg afstöðu bæjarbúa um þetta mál. Við erum meðvitaðir um þetta ónæði, okkur þykir þetta leitt og afsökum það,“ segir Birgir.

„Hins vegar viljum við benda á það að þetta er stutt tímabil sem um er að ræða. Ef gosið er að verða búið eru þetta kannski fjórar vikur sem gosið hefur gengið yfir.“

Birgir bætir við að fjölda þyrluflugferða megi rekja til veðurblíðunnar á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur.

Hafa varla misst úr flug

„Svo er búið að vera einstök veðurblíða sem þýðir að við höfum bara varla misst úr flug. Júní var einhver blautasti mánuður frá upphafi mælinga, en júlí hefur verið einn sá sólríkasti. Þar af leiðandi stigmagnast fjöldi þyrlufluga og er núna miklu eða meira en það hefur nokkurn tímann verið árið 2020,2021 eða 2022.“

Aðspurður hvort borgarbúar ættu að taka málið upp við veðurguðina hlær Birgir og segir að það gæti reynst krefjandi. 

„Það er verst að hvað það er erfitt að ná símasambandi við þá,“ segir hann léttur í bragði. 

Einungis hægt að fljúga frá Reykjavíkurflugvelli

Að sögn Birgis hefur Norðurflug reynt að grípa til aðgerða til þess að stemma stigu við það ónæði sem getur myndast í kjölfar þyrlufluganna. 

„Við höfum beðið um það að fá breyttar flugleiðir og það tekur mjög langan tíma að fá samþykkt. Við höfum líka verið að leita að aðstöðu utan flugvallarins er flókið að gera út frá lagalegu sjónarmiði. Það þarf alls konar samþykki áhættumat og annað sem gerist ekki auðveldlega,“ en í augnablikinu er aðeins hægt að fljúga til og frá Reykjavíkur flugvelli til þess að hægt sé að bera eldgosið augum úr þyrluflugi. 

Hann segir Norðurflugi lítast vel á þær hugmyndir sem nú séu á lofti. 

„Við höfum aldrei haft neitt á móti því að skoða aðrar staðsetningar á þyrluflugi, það þarf bara að gera þetta í samráði við okkur. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert