Eldur kviknaði í íbúð á þriðju hæð fjölbýlishúss í Vesturbæ Reykjavíkur klukkan hálf fimm í nótt. Íbúa var bjargað af svölum íbúðarinnar.
Eldurinn kviknaði út frá rafhlaupahjóli sem var í hleðslu.
Þetta staðfestir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Töluverður eldur og mikill reykur var í íbúðinni þegar slökkvilið kom á vettvang. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og koma rafhlaupahjólinu út úr húsinu.
Slökkviliðsmenn voru í um klukkutíma að reykræsta íbúðina og stigagang, að sögn Sigurjóns. Hann bætir við að töluvert tjón hafi orðið á íbúðinni vegna brunans. Slökkvistörfum er lokið á vettvangi.
Íbúinn var ekki fluttur á slysadeild, að sögn Sigurjóns, en fékk aðhlynningu á vettvangi.