Færri selir í selatalningu en í fyrra

Færri selir voru taldir í ár en á síðasta ári. …
Færri selir voru taldir í ár en á síðasta ári. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hin árlega selatalning á vegum Selaseturs Íslands á Hvammstanga fór fram um helgina, en talið var á 110 km strandlengju um Heggstaðanes og Vatnsnes í Húnaþingi vestra.

Að sögn Örvars Birkis Eiríkssonar framkvæmdarstjóra Selasetursins voru 549 selir taldir. Er það aðeins færra en í fyrra er þeir voru 595. Þá voru þeir 718 í talningunni árið 2021. Örvar segir ekki hægt að draga neinar stórar ályktanir af þessari talningu, en bætir þó við að ánægjulegt hefði verið að sjá aðeins hærri tölu núna.

Þó svo að ekki sé hægt að draga neinar ályktanir út frá talningunni er staða landsela við Ísland aftur á móti viðkvæm. Segir Örvar selastofninn vissulega í hættu. Um 10 þúsund selir eru hér við strendur Íslands en unnið er að því að ná stofninum upp í 12 þúsund.

„Við erum bara að fylgjast með stofninum og sjá hver þróunin verður. Það hafa ekki orðið neinar stórar breytingar seinustu ár. Örlítil fjölgun hefur orðið, ef eitthvað er. Þess vegna vonum við að selnum sé hætt að fækka,“ segir Örvar að lokum.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert