Framkvæmdastjóri Colas skorar á Vegagerðina

Sigþór Sigurðsson, forstjóri Colas, segir fyrirtækjum sem starfa við malbikun …
Sigþór Sigurðsson, forstjóri Colas, segir fyrirtækjum sem starfa við malbikun á Íslandi vera komið í undarlega og erfiða stöðu. Samsett mynd

Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Colas, skorar á Vegagerðina að bæta við fjármagn til viðhalds á vegum, en hann segir fyrirtækjum sem starfa við malbikun á Íslandi vera komið í undarlega og erfiða stöðu. Mikilvægt sé að opinberir verkkaupar haldi ekki að sér höndunum þegar kemur að viðhaldi vega. 

Segir hann það undarlega ráðstöfun að opinberum vegaframkvæmdum sé frestað til að slá á þenslu, enda sé búin að vera mikil og góð uppbygging í malbikunargeiranum á undanförnum árum. Fyrirtæki hafi fjárfest í tækjum og búnaði fyrir hundraða milljóna króna „ekki síst til að uppfylla kröfur stærstu verkkaupa eins og ISAVIA og Vegagerðarinnar.“

Sérhæft fólk hverfur úr geiranum

Hann segir eftirspurn hafa dregist gríðarlega mikið saman eða allt að 40-45% á milli ára. Markaður fyrir malbik hafi numið um 300-350 þúsund tonn á ári í fyrra, en nemi varla 200 þúsund í ár.

Að sögn Sigþórs veldur slíkur samdráttur stórfeldum uppsögnum starfsfólks, sem í mörgum tilfellum sé sérhæft en hverfi úr geiranum.

Sigþór telur vissulega verðbólgu og vaxtahækkanir verða til þess að hið opinbera haldi að sér höndunum og dragi úr framkvæmdum. Hann segir ráðstöfun Vegagerðarinnar um að fresta stærri verkefnum í vegagerð og viðhaldi þjóvega hins vegar undarlega að sínu mati.

Óásættanlegt ástand vega

Þá minnir hann á að öryggi vegfarenda skuli haft í fyrra rúmi, en að því sé stefnt í hættu þegar viðhaldi þjóðvega sé haldið í lágmarki af Vegagerðinni.

„Nú þegar viðhaldi á þjóðvegakerfinu er svo gott sem lokið (fyrir Verslunarmannahelgi), blasa við stórhættulegir vegarkaflar,“ en Sigþór segir óásættanlegt að halda inn í veturinn með vegi í slíku ástandi. 

Sigþór segir tímann knappan og hann skori því á Vegagerðina að beita sér fyrir að fjármagn til vegaviðhalds verði bætt strax. 

„Nú er enn tækifæri því samningar eru opnir við verktaka, tveir mánuðir eftir af góðri tíð og það þarf að taka ákvörðun hratt í þessum málum. Vegir verða ekki yfirlagðir með malbiki eða klæðingu þegar kemur fram á vetur nema með miklu minni gæðum. Við höfum ágúst og september til að bjarga því sem bjargað verður,“ segir Sigþór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert