Háalvarlegt ef eldgos verður í Torfajökulsöskju

Tvö síðustu gosin við Torfajökul urðu árin 871 og 1477.
Tvö síðustu gosin við Torfajökul urðu árin 871 og 1477. Samsett mynd

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir það háalvarlegt mál ef eldgos hæfist í Torfajökulsöskjunni.

Eins og greint hefur verið frá hófst jarðskjálftahrina í norðanverðri Torfajökulsöskju á sunnudaginn en stærsti skjálftinn mældist 3,2 að stærð við Breiðöldu. Grjóthrun varð í Landmannalaugum vegna skjálftanna. „Það er greinilega einhver hreyfing í gangi þarna, en hvað hún þýðir er náttúrulega túlkunaratriði,“ segir Þorvaldur í samtali við Morgunblaðið.

Síðasta gos í Torfajökli varð árið 1477 og myndaði þá Laugahraun og Námshraun. Þorvaldur tekur fram að það sé ekki langur tími síðan í jarðfræðilegu samhengi og bendir á að eldgos í eldstöðinni hafi verið mörg og stór á síðustu árþúsundum.

„Þetta hefur verið öflugt sprengigos og það var alveg jafn öflugt og gosið í Öskju 1875,“ segir hann um eldgosið sem varð í Torfajökli árið 871, en það myndaði Hrafntinnuhraun. Öskjugosið 1875 var þriðja mesta sprengigos á Íslandi á sögulegum tíma þó að megingosið hafi ekki staðið í nema nokkra klukkutíma.

„Ekkert að biðja um svona gos“

Spurður hvaða þýðingu það hefði ef eldgos færi af stað í eldstöðinni segir Þorvaldur:

„Það er háalvarlegur hlutur. Þá gæti komið smá gos, en ef það kemur stórt gos þá er þetta allt önnur spurning. Ég er alveg sannfærður um það að Torfajökull hefur búið til sprengigos sem er á stærð við þriðja og fjórða gosið í Heklu. Þá er gjóskufall um allt land. Ég er ekkert að biðja um svona gos, það er miklu þægilegra að fá þessi gos á Reykjanesskaganum.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert