Hætta á stórslysi ef Öskju verður ekki lokað

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir það ekki æskilegt að vera við …
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir það ekki æskilegt að vera við Öskju. Samsett mynd

„Ef þetta kemur núna þá erum við með fullt af ferðamönnum þarna upp frá. Það gæti orðið katastrófa ef það kæmi gos núna. Þetta eru hlutir sem við verðum að hugsa um.“

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur og vísar til þess að mikið landris hefur mælst við eldstöðina Öskju.

Þrír sentimetrar á mánuði

Landið við Öskju hefur risið um 60 sentímetra frá því að landris tók fyrst að mælast þar í ágúst árið 2021 og hefur risið um hátt í 30 sentímetra frá því í september á síðasta ári, sem nemur um þremur sentímetrum á mánuði.

„Þetta er eitt af því sem ég hef mjög miklar áhyggjur af. Það er búið að vera mjög mikið landris í miðri Öskjunni. Mér finnst þetta vera merki um það að Askja sé að búa sig undir eitthvað.“

Vitum hver endalokin yrðu

Hann bendir á að landrisið eigi sér stað á nokkuð grunnu dýpi sem bendir frekar til þess að um sé að ræða súra kviku sem gæti leitt til öskugoss. Þorvaldur ítrekar þó að hann sé ekki að segja að eldgos við Öskju sé væntanlegt en bendir á að landrisið sé vísbending um að eitthvað sé í aðsigi. 

„Og við erum að láta erlenda ferðamenn labba þarna inn og út. Eins og er myndi ég loka Öskju. Ef það yrði gos með allt þetta fólk þarna á svæðinu þá vitum við alveg hver endalokin eru. Eigum við að taka svoleiðis sénsa?“

Yfirvöld þurfi að grípa inn í

Hann segir það ekki ásættanlega áhættu að leyfa aðgang ferðamanna að svæðinu og biðlar því til yfirvalda að loka svæðinu í kringum Öskju áður en það yrði of seint.

„Ég er allur fyrir ásættanlega áhættu og að fólk fái að gera upp hug sinn ef það er upplýst um hverjar áhætturnar eru,“ segir hann.

„En á meðan við höfum þetta landris inn í miðri öskjunni þá ættum við að loka Öskju. Ég ætla ekki að segja fólki hvað það á að velja en persónulega finnst mér að í svona tilfellum þá þurfi yfirvöld að grípa inn í og hafa vitið fyrir flestum.“

Stórslysið á Nýja Sjálandi má ekki endurtaka sig

Hann segir það mikilvægt að stjórnvöld komi í veg fyrir að stórslys verði á Íslandi eins og varð í Hvítueyju við Nýja-Sjáland árið 2019.

Alls lést 21 eftir að eldfjall á Hvítueyju gaus í desember það ár en 47 manns, aðallega ástralskir ferðamenn, voru á eyjunni þegar eldgosið varð.

„Ég vann í rannsóknum á Nýja Sjálandi og var meðal annars að vinna í rannsóknum á Hvítueyju og þar gýs mjög oft. Við fórum kannski tvisvar eða þrisvar á ári að gera mælingar og rannsóknir. Núna á seinni tíð voru þeir með daglegar ferðir með ferðamönnum á stað sem við vitum að gýs einu sinni til tvisvar á ári.“

Hann hugsi oft til hörmunganna á Hvítueyju þegar hann leiði hugann að Öskju.

„Ef þú ert með fólk á staðnum og ferð þarna á hverjum einasta degi, þá eru líkurnar á því að þú lendir í einhverjum ógöngum mjög háar. Og það gerðist.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka