Hafnfirðingum brugðið eftir sprengingu

Hafnfirðingum brá í brún um fimmleytið í dag, en margir …
Hafnfirðingum brá í brún um fimmleytið í dag, en margir heyrðu háværann hvell koma frá Krýsuvík. Árni Sæberg

Fjöldi íbúa í suðurbænum í Hafnarfirði telur sig hafa heyrt háværan hvell um fimmleytið í dag. Margir telja hvellinn hafa verið sprengingu sem komið hafi frá Krýsuvík.

Slökkviliðið kveðst ekki hafa heyrt af sprengingu á svæðinu.

Vakin var athygli á sprengingunni í Facebook-hópi íbúa í suðurbænum í Hafnarfirði, en einn íbúi segir tengdason sinn hafa séð moldarstróka koma frá Krýsuvík. Annar segir hvellinn hafa hljómað eins og þrumu. 

Námur á svæðinu og eldgosið nálægt

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vissi ekki til þess að sprenging hefði orðið á svæðinu en varðstjóri benti mbl.is á að malarnáma sé á svæðinu og að einnig gæti hvellurinn hafa komið frá gosinu, án þess að hann vissi eitthvað um það að svo stöddu.

Ekki náðist í Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra Hafnarfjarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert