„Held að Heiðar meini ekkert illt með þessu“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að Heiðari Guðjónssyni fjárfesti hafi, í ummælum sínum um bága stöðu íslenskrar tungu vegna straums innflytjenda til landsins, yfirsést það að internetið hafi töluvert meiri áhrif á tunguna en útlendingar sem hingað komi.

Deilt hefur verið um ummæli Heiðars, sem féllu í hlaðvarpinu Skoðanabræður. Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emeritus hefur sagt þau ala á útlendingaandúð.

Snorri Másson stjórnandi hlaðvarpsins sagði þau ummæli Eiríks óheiðarleg.

Verðum fyrir gífurlegum áhrifum

Kári er nýjasti gestur Skoðanabræðra og kveðst hafa fylgst með þessum deilum.

„Ég held að Heiðar Guðjónsson meini ekkert illt með þessu,“ segir Kári.

„Mér finnst mjög ólíklegt að hann sé að reyna að kynda undir útlendingahatri. En ég held að honum hafi sést yfir eftirfarandi: Við lifum að mjög stórum hluta til í netheimum þar sem menn tala að mestu leyti á ensku og við einangrum okkur ekkert uppi á Íslandi. Við verðum á Íslandi fyrir gífurlegum áhrifum og líklega meiri áhrifum af útlendingum í gegnum netið heldur en þeim fáu sem búa á Íslandi,“ segir Kári.

Maður verður að draga víglínu

Breytingar séu óhjákvæmilegar og kveðst Kári opinn fyrir því að Íslendingar búi við tvítyngi í daglegu lífi.

„Vegna þess hvað heimurinn hefur allur herpst saman í tiltölulega lítinn stað í gegnum netið, held ég að við verðum að leggja töluvert á okkur og fórna töluverðu til að geta tjáð okkur eins lipurlega í þeim heimi og fólk úr öðrum stöðum. Íslenskan er mér mjög kær. Mér finnst feykilega gaman að leika mér í íslensku, sérstaklega gaman að níða fólk niður á íslensku,“ segir Kári.

„En ég er hins vegar mjög opinn fyrir því að við látum okkar daglega líf vera tvítyngt. Það er að segja, við notum íslensku þar sem það á við og notum ensku, nútímaesperantó, þar sem hún á við.“

Í vissum tilvikum sé það rembingur að berjast gegn enskri tungu.

„En maður verður samt að draga einhvers staðar víglínu. Mér finnst sjálfsagt að draga víglínu. Og sjá til þess að íslenska sé það tungumál sem okkur er kennt í skólum sem fyrsta tungumál. Að okkar kennslubækur séu á íslensku og að við gefum út okkar bækur á íslensku og svo framvegis. Og að við hlúum að henni og veljum hana,“ segir Kári.

Hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert