Kalla ætti saman kirkjuþing

Þorgrímur Daníelsson, formaður prestafélags Íslands, telur að forseti kirkjuþings ætti …
Þorgrímur Daníelsson, formaður prestafélags Íslands, telur að forseti kirkjuþings ætti að kalla saman kirkjuþing vegna hugsanlegrar óvissu um þjónustutíma biskups. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgrímur Daníelsson, formaður prestafélags Íslands, telur að forseti kirkjuþings ætti að kalla saman kirkjuþing og láta það setja starfsreglur sem eyða þeirri óvissu sem kann að vera varðandi þjónustutíma biskups Íslands.

Stjórn Prestafélagsins lýsti yfir stuðningi við sr. Agnesi á föstudag með stuðningi mikils meirihluta starfandi presta.

Að minnsta kosti 111 prestar, langflestir enn starfandi, hafa lýst yfir stuðningi við ályktun Prestafélagsins. Starfandi prestar eru tæplega 130 talsins.

Kirkjan komi sér upp stjórnarskrá

Þorgrímur segir í samtali við mbl.is að í sínum huga sé það ákaflega nauðsynlegt að kirkjan komi sér upp stjórnarskrá. Einhverjum grunnlögum sem búið er að hugsa í góðan tíma og ekki hægt að breyta með afbrigðum á einum degi á kirkjuþingi.

„Þetta mál er skólabókardæmi um hvað getur gerst þegar ekki er til staðar regluverk sem er hreint. Ég held að kirkjuþing hafi gefið sér of stuttan tíma til að fara yfir regluverkið og breyta því eftir að ríkið lagði niður megnið af regluverkinu um kirkjuna,“ segir hann og bætir því við að gömlu þjóðkirkjulögin hafi í raun virkað sem stjórnarskrá kirkjunnar og það sem kirkjuþing gat ekki breytt.

Breytingar á regluverkinu segir Þorgrímur að hafi oft og tíðum verið illa ígrundaðar sem hefur leitt til alls konar óvissu í ýmsum reglumálum innan kirkjunnar. Það hafi verið mjög vont fyrir kirkjuna.

„Að tala er silfur. Að þegja er gull“

Hann segir það hafa verið góða ákvörðun hjá biskupi að tjá sig ekki um málið í fjölmiðlum.

„Þú kannast kannski við það fornkveðna: Að tala er silfur. Að þegja er gull. Ég tel að Agnes hafi gert alveg rétt í því að láta ekki draga sig út í umræðuna um þetta mál.“

Spurður út í ráðningarsamninginn umdeilda og þá leynd sem hvíldi yfir honum segist Þorgrímur alls ekkert viss um að hann hafi verið eitthvað leyndarmál.

„Ég hef vitað af honum í þó nokkurn tíma. Fyrst ég vissi af honum, sem ekki hef lagt mig sérstaklega fram að fylgjast með þessum málum, þá hljóta allir á kirkjuþingi að hafa vitað af honum.

Þá hef ég hef hvergi séð því haldið fram með trúverðugum hætti að Agnes hafi hegðað sér með óheiðarlegum hætti eða gert eitthvað vísvitandi rangt í þessu máli,“ segir formaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert