Líklegt að gosinu ljúki í lok vikunnar

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur telur ekki langt þar til eldgosið lokist.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur telur ekki langt þar til eldgosið lokist. Samsett mynd

„Það er frekar líklegt að það dragi úr gosinu hægt og rólega og því ljúki í lok þessarar eða næstu,“ segir Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur varðandi eldgosið við Litla-Hrút. Í samtali við mbl.is segir hann líklegt að gosið lokist bráðlega þar sem ekki sé nægt streymi til að halda því opnu. 

„Það er eðlilegt, kvikan byrjar á því að safnast á grunnu dýpi og byggja upp þrýsting. Svo þegar hún brýst í gegn þá kemur hún af miklum krafti upp. Hægt og rólega minnkar sá kraftur af því við erum að tappa af eins og litlu hólfi. Svo er spurning hvort innstreymið inn í hólfið dugi til að halda gatinu opnu. Ef það er þá getur þetta mallað í töluverðan tíma,“ segir Ármann en kveðst þó telja það mjög líklegt miðað við upphaf og þróun gosins að því ljúki brátt.

Öruggt úr hóflegri fjarlægð

Aðspurður segir hann það áfram vera öruggt að fylgjast með úr hóflegri fjarlægð þó gosið taki að lokast. Þó sé mikilvægt að fólk sýni aðgát og muni að hættan sé ekki yfirstaðinn þrátt fyrir að kvikan sé bergi hulin.

„Þetta er ekkert búið. Það rennur stíft í þessu aðfærslukerfi í hrauninu, hraunið er búið að loka yfir þannig kvikan kemst langt frá gígunum,“ segir Ármann en hann segir kvikuna nú streyma bæði til suðurs og norðurs og byggja upp um sig í norðrinu.

„Sjóvið búið í bili“

Streyminu fari hins vegar minnkandi og því allar líkur á að það verði svo lítið að gosið lokist. „Þá er sjóvið búið í bili, og við þurfum að bíða eftir næsta.“

Spurður hvort aðstæður séu til þess að eldgos geti verið viðvarandi eins og t.d. í eldfjallinu Etnu á Sikiley, segir Ármann það ekki ómögulegt. Aðstæður í tilfelli Etnu séu hins vegar ansi ólíkar jarðlögum á Íslandi og þurfi ansi mikið til að loka gatinu þar. Ísland sé hins vegar, líkt og Etna, á flekaskilum og því ekki óhugsandi að eldgos geti verið viðvarandi ef gígurinn helst opinn.

„Við sjáum það bara á næstu dögum til að sjá hvort það haldi áfram,“ segir Ármann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert