„Mjög eðlilegt“ að finna nýjan stað

Einar Þorsteinsson segist skilja vel að kvartað sé undan hávaða …
Einar Þorsteinsson segist skilja vel að kvartað sé undan hávaða þyrlufluga til og frá Reykjavíkurflugvelli. Samsett mynd

Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, segir að ráðinu hafa borist margar kvartanir frá íbúum í Reykjavík og Kópavogi vegna ónæðisins sem skapast hefur með auknu útsýnisflugi þyrlna í kjölfar eldgossins við Litla-Hrút. 

Hann segir umfang þyrluflugs færast verulega í aukana þegar eldgos beri að, sem hafi áhrif á þá sem búi í grennd við flugleiðina. Því sé mikilvægt að huga að því hvernig hægt sé að draga úr ónæðinu sem skapist í kringum flugin. 

Taka Hólmsheiði til greina

„Mér finnst mjög eðlilegt að við finnum nýjan stað fyrir þyrluflugvöllinn. Fyrir nokkrum mánuðum síðan auglýstum við eftir áhugasömum fyrirtækjum til þess að fara með starfsemi sína upp á nýtt atvinnusvæði á Hólmsheiði. Þá var eitt þyrlufyrirtæki sem óskaði eftir því að hefja viðræður við okkur um hvort hægt væri að setja upp þyrluaðstöðu þar einmitt fyrir þetta flug,“ segir Einar.  

„Við tókum mjög vel í það. Það þarf að skoða það vel hvort óhætt sé að vera með slíka starfsemi á Hólmsheiði og ef það fer vel þá væri óskandi ef fleiri fyrirtæki sem eru með þetta útsýnisflug fylgdu í kjölfarið. Þá kannski leysist þetta mál þannig, en þangað til er þetta ónæði fyrir íbúa og ég skil þau sem kvarta undan þessu mjög vel.“

Samráð milli hlutaðeigenda lykilatriði

„Þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að leysa í góðri samvinnu við bæði íbúa og þyrlufyrirtækin“ segir Einar.

„Það er um að gera að draga þá að borðinu sem hafa eitthvað um þetta segja. Langtímalausnin væri að skoða hvort hægt sé að koma upp aðstöðu á Hólmsheiði eða annars staðar aðeins út fyrir bæinn þannig það væri þægilegt fyrir ferðaþjónustuaðila eða ferðamenn að sækja þessa þjónustu.

Þá gæti skammtímalausn verið að semja við þyrluþjónustufyrirtækin um að lenda og taka á loft annars staðar tímabundið á meðan að þetta álag er. En það er eitthvað sem við getum ekki beinlínis verið að setja þrýsting á þau að gera án þess að skoða það í samráði við til dæmis flugmálayfirvöld,“ segir Einar loks. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert