Sendiráði Íslands í Moskvu hefur nú verið lokað og starfsemi sendiráðsins því hætt frá og með deginum í dag. Fyrirsvar gagnvart Rússlandi og öðrum umdæmisríkjum sendiráðsins færist þar með til utanríkisráðuneytisins.
Tveir útsendir starfsmenn utanríkisþjónustunnar voru enn í borginni um helgina en fóru úr landi í gær, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.
Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá þegar íslenski fáninn er dreginn niður fyrir utan sendiráðið í Moskvu.
Utanríkisráðherra tilkynnti 9. júní að frá og með 1. ágúst yrði starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu lögð niður.
Ákvörðunin var tekin í ljósi þess að það samræmist ekki forgangsröðun í utanríkisþjónustu Íslands að starfrækja sendiskrifstofu í Moskvu við núverandi aðstæður.
Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að fyrirsvar Íslands gagnvart Rússlandi og öðrum umdæmisríkjum sendiráðsins (Armeníu, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan, Kirgistan, Moldóvu, Tadsíkistan, Túrkmenistan og Úsbekistan) færist að svo stöddu til utanríkisráðuneytisins.
„Ákvörðun um að leggja niður starfsemi sendiráðsins felur ekki í sér slit á stjórnmálasambandi ríkjanna. Um leið og aðstæður leyfa verður lögð áhersla á að hefja starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu á ný,“ segir í tilkynningunni.
Í kjölfar fregnanna í júní tilkynntu Rússar að ákvörðun íslenskra stjórnvalda myndi hafa afleiðingar.