Orðið stærra en gosið í fyrra

Hraunflæði við Litla-Hrút.
Hraunflæði við Litla-Hrút. mbl.is/Árni Sæberg

Hraunið í eldgosinu við Litla-Hrút stækkaði lítið í síðustu viku og er nú orðið 1,5 ferkílómetrar.

Telst það því orðið stærra en gosið sem varð í ágúst í fyrra, en aðeins um 10% af gosinu sem varð árið 2021, eins og mál standa nú.

Vísbendingar um goslok

Þetta kom fram við mælingar sem gerðar voru í loftmyndaflugi yfir hraunið sem flogið var í gær, 31. júlí og birtust niðurstöður úr því á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands. Kemur þar fram að gosjaðarinn hafi gengið fram um 200-300 metra við austari hluta gossins í Meradölum.

Mælingar sýna að hraunrennslið minnkar stöðugt og er ályktað að það sé nú ekki meira en 3-4 rúmmetrar á sekúndu. Þykir því margt benda til þess að goslok séu í nánd.

Líkist gosinu í fyrra

Samsetning gossins virðist svipa mjög til gossins í Meradölum í fyrra, en bráðin er mjög ólík þeirri sem kom upp í Geldingadölum fyrstu mánuðina árið 2021.

Þegar hraunið er kortlagt er einkum stuðst við myndir sem teknar eru lóðrétt niður á hraunið og er svo unnið landlíkan í framhaldinu úr myndunum.

Sömuleiðis er stuðst við mælingar úr gervitunglinu Pléiades, sem er í eigu frönsku geimvísindastofnunarinnar. Fer gervitunglið yfir svæðið minnst einu sinni á dag, en sá galli er á að það nær engum myndum ef ský eru yfir svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert