Ætla að gera betur í Landmannalaugum

Páll Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Ferðafélags Íslands, segir að þetta sé ekki …
Páll Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Ferðafélags Íslands, segir að þetta sé ekki fyrsta skiptið sem umgengni um Landmannalaugar komist í umræðuna. Samsett mynd

Framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, sem sér um rekstur á skálanum við Landmannalaugar, segir félagið ætla að endurskoða verkferla sem snúa að umgengni á svæðinu. Hann bendir einnig á að fyrirhuguð uppbygging við Landmannalaugar muni raska nýju svæði innan friðlandsins.

Tveir Íslendingar sem gerðu sér nýverið ferð í Landmannalaugar sögðu við mbl.is í dag að umgengnin þar væri afar slæm. Ferð þeirra hafi einkennst af stífluðum kló­settum, skorti á kló­sett­papp­ír, rusli á víðavangi og viðbjóðslegri lykt á salernum og í sturtuklefum.

„Þetta kemur alltaf upp í umræðuna annað slagið og berst til okkar og skálavarða á svæðinu. Við erum með ákveðna verkferla og salernin eru þrifin samkvæmt þeim. Hvað varðar þessa lýsingu núna, þykir okkur afar miður að þetta sé upplifun fólks. Við erum með frábæra skálaverði sem leggja sig fram við að þrífa salernin,“ segir Páll Guðmundsson, fram­kvæmda­stjóri FÍ, í samtali við mbl.is.

„En það er gríðarlega mikill fjöldi fólks sem kemur á salernin á stuttum tíma og umgengnin getur verið misgóð. Við viljum núna fara yfir þá verkferla sem við erum með til að gera enn betur.“

Landmannalaugar - Suðurland - Friðland að Fjallabaki - Umhverfisstofnun - …
Landmannalaugar - Suðurland - Friðland að Fjallabaki - Umhverfisstofnun - Hálendið - Ferðafélag Íslands - Öræfi - Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Salernin börn síns tíma

Páll bætir því við að salernisaðstaðan á svæðinu sé gömul.

„Það hefur komið fyrir að salerni hafa stíflast vegna þess að ferðafólk er að setja eitthvað í þau sem á ekki að fara þangað. Þá koma okkar starfsmenn og gera við salernin. Það hefur stundum komið fyrir í sumar og þá þarf því miður að loka einhverjum salernum tímabundið. Yfirleitt hefur þó náðst að laga það nokkuð fljótt og vel,“ segir hann.

„Þetta eru salerni sem voru byggð 1995 og 1996 og eru að einhverju leyti börn síns tíma. Umferðin sem gerð var ráð fyrir þá var kannski miklu meiri í dag.“

Með tilliti til þess segir Páll að það standi hugsanlega til að bæta við fleiri skálavörðum á svæðið ef þörf er á því.

„Við erum með sex skálaverði að störfum alla daga, þar að auki eru landverðir að störfum sem hafa náð að sinna þessum verkefnum, en ef umferðin er að aukast eitthvað umfram það sem við þekkjum munum við að sjálfsögðu skoða það að bæta við skálavörðum. Á móti kemur samt að aðstaða fyrir skálaverði er takmörkuð á svæðinu.“

Ný uppbygging röskun á friðlandi

Í deiliskipulagi Rangárþings ytra fyrir svæðið er gert ráð fyrir byggingu veitingasals, verslunar og manngerðrar laugar á áður óröskuðu svæði en landið er innan friðlands. Deiliskipulag tók gildi árið 2017.

Páll segir FÍ fagna uppbyggingu á svæðinu, einkum uppbyggingu á nýju bílastæði við Námskvísl og að verið sé að tryggja aðgengi og öryggi fólks inn á svæðið.

Félagið hefur þó „í öllu þessu ferli talað fyrir því að vinna með núverandi skálasvæði í stað þess að raska nýju svæði innan friðlandsins“, segir Páll.

Áform um framkvæmdir í Landmannalaugum kveða á um mótttökuhús með …
Áform um framkvæmdir í Landmannalaugum kveða á um mótttökuhús með sex gistiskálum, veitingasal, verslun og manngerðri laug. Ljósmynd/VA Arkitektar

„Þetta er samtal sem við höfum átt í gegn um árin og er með þessari niðurstöðu deiliskipulagsins sem sveitarfélagið samþykkir. En við teljum líka, þar sem það eru fimm ár liðin síðan [deiliskipulagið var samþykkt] og sex til átta ár síðan það var farið í hönnunarsamkeppni, að umferð ferðamanna hefur aukist og við teljum eðlilegt að fara í eina umræðu aftur um þetta mál til að sjá hvað er virkilega best fyrir náttúruna á svæðinu,“ segir hann.

„Það bæði tekur langan tíma og er kostnaðarsamt og ýmsum spurningum er enn ósvarað, til dæmis með frárennslismál, heitt og kalt vatn og fleira. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að þetta þyrfti að fara í viðhorfskannanir, bæði með ferðaþjónustuaðilum og almenningi.“

Þjónustuhús á að vera um 200 fm og innihelda aðstöðu …
Þjónustuhús á að vera um 200 fm og innihelda aðstöðu sem tengist manngerðri laug og þjónar tjaldsvæðinu. Þar á að vera fatageymsla, sturtur og þurrksvæði og snyrtingar Ljósmynd/VA Arkitektar

Umferð um Landmannalaugar þegar orðin „massatúrismi“

Snæbjörn Guðmundsson, formaður umhverfissamtakanna Náttúrugriða, sagði í viðtali við Vísi í gær að fyrirhuguð framkvæmd við Landmannalaugar væri áform um svokallaðan „massatúrisma“. Páll kveðst sammála Snæbirni í þeim málum og segir að FÍ hafi um hríð talað fyrir því að koma betri stjórn á umferð inn á svæðið.

„Umferð ferðamanna um landmannalaugar í dag er auðvitað orðin massatúrismi, þarna eru tvö til þrjú þúsund manns á dag. Við höfum talað fyrir því að taka upp ítölu, bæði inn á Laugaveginn sjálfan og í Landmannalaugar,“ segir hann.

„Það eru til margar ágætishugmyndir um að takmarka umferð ferðafólks inn í Landmannalaugar, bæði með því að koma þeim í rútum frá hálendismiðstöðinni í Hraunum og að fara inn á ákveðnum tímahólfum inn á svæðið. Þá væri hægt að taka upp betri stýringu inn á svæðið og um leið tryggja og varðveita upplifun fólks. En svo að lokum snýst þetta mest um að vernda náttúruna á svæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert