Ragnar Þór Þrastarson, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra skáta, segir í samtali við mbl.is að vel sé fylgst með hópi íslenskra skáta sem sækir nú alheimsmót skáta í Suður-Kóreu en fréttir hafa borist af því að mörg hundruð skáta hafi örmagnast í hitanum.
„Við erum í nánu sambandi og samstarfi við hópinn okkar úti og tökum stöðuna á þeim mörgu sinnum á dag. við fylgjumst alltaf mjög náið með hópum á okkar vegum,“ segir Ragnar.
Fararstjóra og fylgdarfólk hópsins segir hann vinna frábæra vinnu í að taka ekki ákvarðanir og ana ekki út í hluti sem fólki finnst óþægilegt eða líður illa með. Hann segir enga Íslendinga hafa örmagnast þó fólk sé vissulega þreytt. Þá segir hann einhverja hafa fengið flugna- og skordýrabit sem hefur þurft að meðhöndla.
„Fólk er ekki vant þessum mikla hita en það er mikil vinna sem fylgir því að vera á svona stóru móti. Unnið er öxl í öxl og þétt bæði hér á Íslandi og úti í Kóreu til að tryggja öryggi hópsins og að fólk nái líka að skemmta sér á alheimsskátamóti.“
Segir hann engar ákvarðanir teknar um að ana út í aðstæður sem skekkja eitthvað öryggi hópsins og ef svo yrði séu fararstjórar og fylgdarfólk með skýr tilmæli um að bakka út úr þeim aðstæðum.
Mótið stendur til 12. ágúst en að sögn Ragnars standa einhverjar ferðir til eftir það. „Flestir koma heim vikuna eftir.“
„Þetta er viðbrigði fyrir fólk að koma út í þennan mikla hita og skipulagið á mótinu er annað en við erum vön kannski. Þetta eru krefjandi aðstæður en við erum með vant fólk í hverju horni.“